Ferill 706. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1395  —  706. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Gísla S. Einarssonar um akstur og hvíldartíma ökumanna í innanlandsflutningum.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hefur verið lagt mat á þann mismun sem er á afkastamöguleikum vöruflutninga- og fólksflutningafyrirtækja á Íslandi, sbr. reglugerð nr. 8/1996, lög nr. 68/1996, sbr. lög nr. 3/1987, og reglugerð nr. 309/1996, og þeirra fyrirtækja í öðrum EES-ríkjum sem starfa samkvæmt samsvarandi lögum og reglum?
     2.      Hefur verið gerð athugun á því hvaða ívilnanir er unnt að veita vegna séríslenskra aðstæðna, svo sem smæðar, veðurfarsaðstæðna og gjörólíks vegakerfis? Ef svo er, hverjar eru þær?
     3.      Til hvaða aðgerða hefur verið gripið til að mæta árstíðabundnum aðstæðum, svo sem fiskflutningum að vetri og sumri, með hliðsjón af að reglugerðir og lög hafa leitt til þrenginga í rekstri á Íslandi í þessari atvinnugrein miðað við Evrópulöndin, sérstaklega hvað varðar einstaklinga í rekstri?
     4.      Telur ráðherra ekki ástæðu til að nýta til fullnustu þau sérákvæði sem gefast vegna íslenskra aðstæðna, m.a. með heimild til áritunar ökurita?

    Fyrirspurnin lýtur að akstri og hvíldartíma ökumanna í innanlandsflutningum. Spurt er hvort lagt hafi verið mat á mismun á afkastamöguleikum vöruflutninga- og fólksflutningafyrirtækja hér á landi og fyrirtækja í öðrum EES-ríkjum. Því er til að svara að af hálfu dómsmálaráðuneytisins hefur slíkt mat ekki farið fram. Tekið skal fram að þau lög og reglugerðir sem vísað er til varða álagningu og innheimtu þungaskatts sem ekki fer fram á vegum ráðuneytisins.
    Um aksturs- og hvíldartíma ökumanna gildir reglugerð um aksturs- og hvíldartíma ökumanna o.fl. í innanlandsflutningum og við flutning innan Evrópska efnahagssvæðisins, nr. 136/1995 með breytingum nr. 658/1998, 768/2000 og 851/2000. Er sú reglugerð sett samkvæmt heimild í umferðarlögum. Með reglugerðinni eru teknar upp sem innlendar reglur EB- reglur sem Ísland undirgekkst á sínum tíma með gerð EES-samningsins. Er þar um að ræða EB-reglugerðir sem innleiða ber sem slíkar í landsrétt. Þau frávik sem EB-reglugerðirnar heimila hafa öll verið nýtt. Eftirlit með þessum reglum er í höndum Vegagerðarinnar og lögreglu. Um undanþágur fer þá samkvæmt reglunum, svo og um eftirlit. Er þá m.a. tekið tillit til þess ef ökumenn tefjast vegna ófyrirsjáanlegra atvika eins og illviðris, mikillar ófærðar o.þ.h. og stutt er í áfangastað ef skráðar skýringar á ökuritaskífur teljast fullnægjandi.