Vatnsveitur sveitarfélaga

Þriðjudaginn 22. janúar 2002, kl. 16:35:38 (3441)

2002-01-22 16:35:38# 127. lþ. 57.2 fundur 378. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (rekstrarform og arðgreiðslur) frv., DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 127. lþ.

[16:35]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. svaraði ekki spurningunni sem ég bar upp við hann varðandi arðsemi hitaveitna og rafmagnsveitna, hvort ekki ætti að banna þeim að hafa arðsemiskröfu.

Sveitarfélögin hafa mörg hver sett saman í eina stofnun bæði rekstur á heitu og köldu vatni. Ég held að það sé afar gott. Það sparar ýmislegt í yfirstjórn og rekstri að hafa slíkt á einni hendi. Ég frábið mér að þannig sé talað til sveitarstjórna í þessu landi að þær hugsi ekki um hag íbúanna. Fyrst og fremst eru sveitarstjórnir að hugsa um hag sinna íbúa í öllum ráðum sínum og gerðum.