Búnaðarlög

Þriðjudaginn 22. janúar 2002, kl. 18:04:42 (3457)

2002-01-22 18:04:42# 127. lþ. 57.5 fundur 350. mál: #A búnaðarlög# (erfðanefnd) frv., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 127. lþ.

[18:04]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki í langar umræður um ræðu hv. þm. þar sem hv. þm. gagnrýndi eitt atriði, þ.e. þá breytingu að í stað þess að lögum samkvæmt skuli Náttúrufræðistofnun skipa mann í þennan hóp þá færist það til æðsta mannsins sem yfir er á því sviði, sem er umhverfisráðherra, kona í dag, kannski karl á morgun. Nefndin leggur til að þetta verði með þessum hætti. Ég ætla ekkert að segja um að það sé neitt óeðlilegt að ráðherra skipi í nefndina. Það getur þess vegna verið maður frá Náttúrufræðistofnun, ég þekki það ekki, ég hef ekki sett mig svo inn í það atriði.

En hér er verið að fjölga í nefndinni og kalla inn þekkingu og ég fullyrði að Náttúrufræðistofnun er ekki á neinum dauðalista og menn þurfa ekki að geta sér þess til við þessa umræðu. Þetta er fyrst og fremst afrakstur þess nefndarstarfs sem hér fór fram og þær tillögur sem ég hef gert að mínum og ég legg til að landbn. fari alveg sérstaklega yfir það atriði sem hv. þm. nefndi um þessa breytingu. Ég hygg að það sé ekkert dularfullt við hana og engin aðför að einum né neinum sem liggi í gegnum þessa breytingu. Ég hygg að þetta sé eitthvað sem kannski teljist eðlilegra þegar kemur maður úr þeirri átt að það sé umhvrh. sem skipi hann.

Ég bið hv. landbn. að yfirfara þetta mál með öllum þeim aðilum sem hún leitar umsagnar hjá eða kallar fyrir nefndina.