Húsnæði Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur

Miðvikudaginn 23. janúar 2002, kl. 14:35:13 (3487)

2002-01-23 14:35:13# 127. lþ. 59.4 fundur 376. mál: #A húsnæði Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 127. lþ.

[14:35]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller):

Herra forseti. Ég þakka svör ráðherra og þá umræðu sem fram hefur farið. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að eignaskipting milli ríkis og borgar er að borgin á 60% og ríkið 40%, og að viðræður hafi verið í gangi um langt skeið og ágreiningur sé enn uppi. Ég hvet til þess að viðræðunum verði lokið sem fyrst þannig að hægt verði að finna Heilsuverndarstöðinni stað í framtíðinni. Ég fagna því jafnframt að hæstv. ráðherra lýsti því yfir að stefnt væri að því að nýta þetta húsnæði undir heilbrigðisþjónustuna og þá vonandi undir heilsuvernd því að mér er mjög umhugað um þann þátt.

Komið hafa fram hugmyndir um lýðheilsustofnun eins og fram kom í ræðu hæstv. ráðherra og hefur ýmist verið talað um lýðheilsustofnun, forvarnastofnun og eins eru uppi hugmyndir um að nota bara gamla orðið, heilsuverndarstöð, og hv. þm. Katrín Fjeldsted hefur m.a. talað fyrir því. Þetta er gott og gamalt hugtak og lýsir starfseminni mjög vel. Áhugamenn um lýðheilsu og heilsuvernd hafa beðið mjög spenntir eftir boðuðu frv. hæstv. heilbrrh. um lýðheilsustofnun og það er alveg tilvalið að þetta húsnæði verði notað undir hana. Í Heilsuverndarstöðinni fer fram, eins og margoft hefur komið fram, margvísleg starfsemi á þessu sviði. Verkefni þeirra sem vinna að forvörnum skarast og segja má með nokkrum rökum að nýting á fjármagni væri betri með því að sameina þau ráð og þær nefndir sem eru nú þegar starfandi á þessu sviði á vegum ríkisins.

Ég vil samt leggja áherslu á að þetta húsnæði verði áfram nýtt í þágu heilsugæslu, heilsuverndar eða lýðheilsu og hvet því ráðherra til að leggja sem allra fyrst fram frv. um lýðheilsustofnun.