Könnun á vegum OECD á námsgetu skólabarna

Miðvikudaginn 23. janúar 2002, kl. 15:01:15 (3497)

2002-01-23 15:01:15# 127. lþ. 59.6 fundur 354. mál: #A könnun á vegum OECD á námsgetu skólabarna# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 127. lþ.

[15:01]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir fyrirspurnina. Það er rétt sem kemur fram í spurningu hennar að við getum tiltölulega vel unað við þá niðurstöðu sem kemur fram í þeirri könnun miðað við þá stefnu sem við höfum haft í skólamálum að skólakerfi okkar sé einsleitt og nái sem best utan um allan nemendahópinn og könnunin sýnir að það markmið hefur náðst. Hins vegar er einnig ljóst að til þess að standa okkur betur og ná betri árangri í könnuninni, ef við leggjum það mat á málið, þá þurfum við að fjölga nemendum sem eru í hæsta hópnum, og það er markmið í sjálfu sér sem við þurfum að velta fyrir okkur þegar við skoðum könnunina og metum stöðu okkar.

Við höfum ekki unnið endanlega skýrslu um íslenska þáttinn. Verið er að vinna að henni, sérstakri landsskýrslu, á vegum Námsmatsstofnunar. Það er von okkar að hún verði tilbúin síðla þessa árs og þá verður enn þá betur unnt að greina stöðu okkar samkvæmt könnuninni.

Spurt er: ,,Hvernig hyggst ráðherra nýta sér niðurstöður könnunar á námsgetu skólabarna, svokallaðrar PISA-könnunar, sem gerð var á vegum OECD?``

Þá vil ég segja að rannsóknin bendir til þess að hér á landi sé nemendum sem eiga í erfiðleikum með nám vel sinnt í samanburði við það sem gerist annars staðar, eins og hv. þm. nefndi. Halda þarf áfram á þeirri braut. Jafnframt þarf að vinna að því að sinna þeim sem eiga auðvelt með nám. Það er umhugsunarefni að ekki fleiri íslenskir nemendur komist í efsta flokk, þ.e. í hóp bestu nemendanna. Því þarf að vinna að því að sinna þeim betur sem eiga auðvelt með nám. Með nýrri skólastefnu og með nýjum aðalnámskrám og skipulagi skólastarfs í samræmi við þær er lögð áhersla á sveigjanleika í þágu dugmikilla nemenda. Ákveðið hefur verið að menntmrn. geri könnun á því hvað skólar eða skólaskrifstofur eru að gera fyrir afburðanemendur og er vinna við þá könnun þegar hafin.

Í þessu sambandi er mikilvægt að auka framboð námsefnis og námsgagna. Jafnframt býður upplýsingatæknin upp á fjölbreytt tækifæri í skólastarfi, t.d. aukna möguleika á sérhæfðri fjarkennslu á netinu. Hún opnar áður óþekktar leiðir til náms og kennslu, opnar skóla gagnvart umheiminum og veitir nýja möguleika í samskiptum. Þessi nýja tækni nýtist hinum almenna nemanda en getur jafnframt skapað nýjar leiðir fyrir nemendur sem eiga erfitt með nám sem og fyrir afburðanemendur.

Í þessari rannsókn eru vísbendingar um að íslenska skólakerfið hafi bætt árangur sinn í stærðfræði frá því í síðustu alþjóðlegu rannsókn. Betri og áreiðanlegri niðurstöður fást um þetta árið 2004 þegar niðurstöður úr PISA 2003 liggja fyrir þar sem megináhersla er á stærðfræði. Með breyttum áherslum í náttúrufræði í skólum landsins ásamt nýrri aðalnámskrá og nýjum námsgögnum er unnið að bættum árangri. Næsta vor verður í fyrsta sinn boðið upp á samræmt próf í náttúrufræði fyrir 10. bekk sem mun væntanlega gefa góðar vísbendingar um stöðu nemenda í þeim greinum á landsvísu og áhuga nemenda á náttúrufræðigreinum.

Í öllum löndunum sem tóku þátt í rannsókninni kemur fram verulegur kynjamunur á frammistöðu í lestri, stúlkum í hag. Minni kynjamunur kom fram í náttúrufræði og stærðfræði. Hér á landi var eins og í öðrum löndum kynjamunur í lestri mikill, piltum í óhag, sem kemur líklega niður á frammistöðu pilta í hinum greinunum.

Að frumkvæði ráðuneytisins hefur á síðustu árum farið fram umræða um stöðu pilta í skólum. Ljóst er að lestrarfærni er lykill að góðum námsárangri. Því þarf að skoða stöðu pilta sérstaklega að þessu leyti. Í þessu sambandi má nefna að æskilegt er að stuðla að samræmdu átaki heimila og skóla. Sérstaka áherslu þarf að leggja á að nemendur lesi sér til fróðleiks og ánægju og í þeim efnum skiptir stuðningur foreldra miklu máli. Eins verða foreldrar hvattir til að lesa sem mest fyrir börn sín.

Það er mikils virði að við Íslendingar eigum aðild að samanburðarrannsóknum af þessu tagi. Með þeim fáum við nýjar forsendur til að meta styrk okkar og veikleika og umræður um úrbætur byggjast á traustari forsendum en ella væri. Hægt er að bera þessar niðurstöður saman við niðurstöður 2. og 3. umferðar PISA. Þannig verður hægt að móta framtíðarstefnu í skólakerfinu sem byggja á traustri vitneskju um raunverulega stöðu nemenda í þessum námsgreinum við lok grunnskóla í samanburði við aðrar þjóðir. Innan menntmrn. hefur nú verið komið á því skipulagi að námskrár eru í stöðugri endurskoðun og aðlögun að breyttum kröfum og að sjálfsögðu verður hugað að þeim í ljósi þeirra niðurstaðna sem nú liggja fyrir og annarra kannana sem gerðar verða.