Loftferðir

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 12:07:49 (3538)

2002-01-24 12:07:49# 127. lþ. 60.2 fundur 252. mál: #A loftferðir# (eftirlitsheimildir Flugmálastjórnar, flugvernd, gjöld o.fl.) frv., Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[12:07]

Frsm. minni hluta samgn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var forvitnilegt að hlýða á að hæstv. ráðherra skuli setja sig í það sæti að fjalla um hvað er málefnaleg gagnrýni og hvað ekki og flytja síðan þá ræðu sem hann flutti áðan. Það var dálítið sérstakt að hlýða á þetta og ég frábið mér það, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra komi hér upp og felli um það einhverja dóma hvers konar gagnrýni er málefnaleg og hver ekki. Það finnst mér alveg fyrir neðan allar hellur.

Ég ætla ekki að fjalla mikið um það sem hæstv. ráðherra sagði, enda hefur verið um það fjallað mestan part. Ég ætla að reyna að fjalla aðeins um kjarnann í þessu, hvaða rök standa til þess að við í minni hlutanum höfum gert athugasemdir við þetta. Hvaða kjarnaatriði eru það? Þau eru einfaldlega þau að hlutverk Flugmálastjórnar eru tvenns konar sem eru ósamrýmanleg. Annars vegar á að greiða götu flugrekstraraðila, þeirra sem starfa í fluginu, og hins vegar að tryggja öryggið. Það hefur sýnt sig að það eru mýmörg mál --- ég ætla ekki að rekja þau hér, við munum takast á um það síðar á þinginu í umræðum utan dagskrár --- þar sem sýnt er fram á að þessi hlutverk eru ekki samrýmanleg. Þess vegna eru þær valdheimildir sem hér er verið að leggja til til þess fallnar --- menn óttast að mjög erfitt verði að framkvæma það með þeim hætti að það verði ásættanlegt.

Hæstv. ráðherra kemur hér upp og leyfir sér að leggja síðan út af því að við í minni hlutanum séum allt að því andvíg flugöryggi, ef túlka má orð hans, kemur síðan í hinni sömu ræðu í upphafi og fjallar um málefnalega gagnrýni.

Virðulegi forseti. Ég frábið mér umræðu af slíkum toga. Við í minni hlutanum höfum verið að reyna að koma réttum kúrs á þetta mál en því miður hefur það ekki tekist enn.