Samgönguáætlun

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 15:22:33 (3569)

2002-01-24 15:22:33# 127. lþ. 60.4 fundur 384. mál: #A samgönguáætlun# frv., 385. mál: #A lagaákvæði er varða samgönguáætlun o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[15:22]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. velti fyrir sér hvort hér hefði átt að flétta alveg saman hafnaáætlun og sjóvarnaáætlun. Um það vil ég segja að um sjóvarnaáætlun gilda sérstök lög. Niðurstaðan var sú að hrófla ekki við þeim. Auk þess er um það að ræða að að landbrotavörnum, sjóvörnum, er víðar unnið en á hafnarsvæðum. Að þeim þarf m.a. að vinna fyrir löndum sem eru í einkaeign en ekki í eigu sveitarfélaga eða ríkis og þá með þátttöku viðkomandi landeigenda. Þar er um að ræða nokkuð flókið mál sem ekki var talið rétt að hrófla við, að svo komnu máli í það minnsta. Þar fyrir utan er unnið að því að verja landsvæði sem ekki er hafnarsvæði, t.d. hefur verið mjög sótt í að verja tiltekna golfvelli fyrir ágangi sjávar. Þannig er af mörgu að taka. Niðurstaðan var sú að halda þessu óbreyttu að sinni.

Varðandi það álit hv. þm. að Alþingi ætti að eiga sérstaka fulltrúa í samgönguráði og það væri nauðsynlegt að stjórnmálaflokkarnir hefðu þar aðgang vil ég segja að oft ræða menn um að framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið þurfi að passa sig á að blanda sér ekki hvort í annars verk. Ég minni hv. þm. á að samgönguráðið er að vinna fyrir ráðherrann að undirbúningi tillögu sem ráðherrann ætlar að flytja í krafti veru sinnar í ríkisstjórn. Ég tel það fullkomlega eðlilegan máta að tilteknir embættismenn og þá fulltrúi ráðherrans sinni þessum undirbúningi en síðan komi Alþingi að málinu þegar fjallað verður um þessa tillögu ríkisstjórnarinnar eða viðkomandi ráðherra. Þess vegna taldi ég ekki eðlilegt að Alþingi kysi fulltrúa til að vinna fyrir ráðherra að tillögugerð, sem er auðvitað pólitísk tillaga.