Samgönguáætlun

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 16:56:30 (3582)

2002-01-24 16:56:30# 127. lþ. 60.4 fundur 384. mál: #A samgönguáætlun# frv., 385. mál: #A lagaákvæði er varða samgönguáætlun o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[16:56]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmönnum fyrir ágætar umræður og góðar undirtektir undir málin sem hér eru flutt, frv. til laga um samgönguáætlun og frv. til laga um breytingar á öðrum frv. sem því tengjast. Ég heyri ekki betur en að þrátt fyrir allt sé býsna góð samstaða um það sem hér er verið að fjalla um.

Eins og vænta mátti í tengslum við umræðu um þessi frumvörp koma auðvitað upp umræður um vegamál og annað sem tengist þessu. Auðvitað er samgönguáætlun ekki til umfjöllunar hér þó að hugmyndir um hana komi að sjálfsögðu inn í þessa umræðu. Engu að síður vil ég fara nokkrum orðum um það sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir vék að.

Hv. þm. nefndi að henni fyndist höfuðborgin afgangsstærð í áformum í samgöngumálum. Ég er því ekki sammála. Það fer ekkert á milli mála að uppbygging samgöngumannvirkja hér á höfuðborgarsvæðinu hefur verið mikil þó engu síður sé það samdóma álit manna að það þurfi að mörgu að hyggja áfram og vinna að úrbótum í samgöngumálunum. Enginn efast um það, held ég. Við verðum hins vegar að vinna þetta allt eftir efnum og ástæðum. Ég held að það hljóti að hafa vakið heilmikla athygli sem fram kemur í mjög góðu viðtali við borgararkitekt í Morgunblaðinu um helgina þar sem hann vekur athygli á því að umferðarmálin hér á höfuðborgarsvæðinu séu trúlega með því sem best gerist í borgum. Það er mitt mat að óvíða sé betra ástand í umferðarmálum í borgum en hér á höfuðborgarsvæðinu.

Samt sem áður leggjum við mikla áherslu á að vinna að úrbótum. Nýlega var opnað mannvirki, þ.e. mislæg gatnamót, á Breiðholtsbraut/Reykjanesbraut og þess vegna er unnið að mislægum gatnamótum, miklu umferðarmannvirki, á mótum Vesturlandsvegar og Víkurbrautar og eins er verið að undirbúa miklar framkvæmdir í Hafnarfirði, á Reykjanesbrautinni og þar af leiðandi er í undirbúningi breikkun á Reykjanesbrautinni í gegnum Kópavog fram hjá Smáralindinni. Þetta eru framkvæmdir sem verið er að undirbúa. Að þeim er unnið og er alveg nauðsynlegt að við sjáum fyrir endann á þessum framkvæmdum.

[17:00]

Hins vegar hefur það verið mikið í umræðunni, eins og eðlilegt er, að herða þurfi á þessum framkvæmdum og m.a. hefur verið vakin athygli á því í blöðum síðustu dagana að huga þurfi að umferðarmannvirki eða mislægum gatnamótum á mörkum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Sá galli er hins vegar á gjöf Njarðar að stjórnendur höfuðborgarinnar, þeir sem nú ráða þar ríkjum, hafa ekki til þessa viljað mislæg gatnamót á þessum stað heldur ljósastýrð gatnamót. Mér skilst þó að nú sé að verða hugarfarsbreyting að þessu leyti hjá borginni og að í skipulagi sé gert ráð fyrir að breyta þessu. En ég er alveg sannfærður um að ef mislæg gatnamót á þessum mótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar hefðu verið í skipulagi borgarinnar væri búið að byggja þetta mannvirki. Og ég hef margsagt að ég tel að þetta sé eitt allra mikilvægasta umferðarmannvirkið sem þarf að vinna að hér á höfuðborgarsvæðinu.

Hvað um það, ég ætla ekki að fara í umræðu um vegáætlun hér eða samgönguáætlun. Við ræðum samgönguáætlunina í haust. Hins vegar þarf væntanlega síðar á þessum vetri að ræða vegáætlunina en gert var ráð fyrir endurskoðun hennar.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir spurði hvenær ég gerði ráð fyrir, og vitnaði þá til skýrslu stýrihópsins, að huga þyrfti að jarðgöngum á höfuðborgarsvæðinu, úr Reykjavík og yfir í Kópavog. Ég tel ekki skynsamlegt að kveða upp úr með það á þessu stigi, ég tel að við þurfum að vinna betur að undirbúningi þess máls áður en farið verður að gefa yfirlýsingar um hvar það mannvirki eigi að vera í tímaröðinni því að við þurfum að skoða svæðið í heild sinni. Ég tel hins vegar að það sé alveg augljóst að bygging Sundabrautar hljóti að vera framar í þessari forgangsröð enda er verið að undirbúa það mál í samstarfi Vegagerðarinnar og borgarinnar. Ég vil því ekki á þessu stigi gefa nein fyrirheit um jarðgöng hér á höfuðborgarsvæðinu en einmitt vegna þess að við ætlum að gera langtímaáætlun, tólf ára áætlun, þurfum við að skoða þær hugmyndir eins og allar aðrar og reyna að staðsetja þær framkvæmdir í tíma miðað við áform í skipulagsmálum, spár um mannfjöldaþróun og annað sem taka verður tillit til þegar verið er að undirbúa áætlun um mannvirkjagerð.

Hv. þm. fór yfir nokkur atriði úr svæðisskipulagsvinnu höfuðborgarsvæðisins, og það er af hinu góða og mjög mikilvægt að þingmenn, ekki síst á því svæði, setji sig vel inn í þau mál. En ég vil vekja athygli á því að í vinnu stýrihópsins, sem hér hefur verið nokkuð til umræðu, hefur einmitt verið reynt að miða mjög við þær spár og þær áætlanir sem eru í svæðisskipulaginu fyrir höfuðborgarsvæðið og ég tel að það sé afar mikilvægt að reynt sé að vinna þetta saman.

Vegna þess álits sem hér kom fram fyrr í dag, um að hugmyndir og tillögur í skýrslu stýrihópsins um uppbyggingu á Reykjavíkurflugvelli stönguðust á við áform skipulagsyfirvalda í borginni um að flugvöllurinn fari, vil ég segja að vitaskuld hljótum við að gera ráð fyrir því að sinna eðlilegri uppbyggingu við flugvöllinn. Samkvæmt skipulagi er gert ráð fyrir því að hann verði þar í óbreyttri mynd fram til 2016. Sú áætlun sem við munum fjalla um hér nær til 2012 þannig að það verður nokkur tími frá lokum samgöngu\-áætlunar þar til flugvellinum verður gert að fara miðað við núverandi skipulagsáætlanir. Ég vil því bara undirstrika að það er ekki verið að ógna með nokkrum hætti áformum þeirra sem stjórna borginni með þeim hugmyndum sem eru í tillögum stýrihópsins.

Að öðru leyti vil ég bara endurtaka að ég þakka kærlega fyrir viðbrögð við þessum frv. og vona svo sannarlega að samgn. þingsins vinni hratt og vel að afgreiðslu málsins þannig að á grundvelli nýrra laga um samgönguáætlun verði hægt að hefja vinnu við gerð fyrstu samgönguáætlunarinnar þar sem allir þættir samgöngumála eru teknir með.