Aukaþing Alþingis um byggðamál

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 14:28:15 (3686)

2002-01-29 14:28:15# 127. lþ. 62.5 fundur 24. mál: #A aukaþing Alþingis um byggðamál# þál., Flm. ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[14:28]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Eitt til leiðréttingar strax í upphafi. Gert var samkomulag um það að reynt yrði að haga umræðunni þannig að hvert þingmál tæki u.þ.b. 20 mínútur. Framsögumaður eða framsögumenn mundu nýta um helming þess tíma og þá var vísað í framsögumann. Það gerði ég. Ég talaði í 8 mínútur. Hv. þm. sem setti sig á mælendskrá þegar hún var tóm, hv. þm. Jón Bjarnason, talaði í 3 mínútur. Við höfum staðið við það samkomulag sem við gerðum. Ég vil að þetta komi skýrt fram.

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessa stuttu en tilfinningaþrungnu umræðu um byggðamálin. Hún gefur okkur til kynna hve mikilvægt það er að efna til markvissrar umræðu um byggðamál. Hér hefur verið bent á að allflest mál sem þingið lætur til sín taka snerta byggðamál; skattamál, velferðarmál, samgöngur, einkavæðing. Hvernig sem á það er litið, þá snerta þessi mál byggðir landsins. Það sem við erum að leggja til er að efnt verði til sérstaks byggðaþings þar sem þessi mál eru tekin til umræðu með hliðsjón af byggðaþróun í landinu og við viljum að á sama tíma verði efnt til sérstakrar ráðstefnu þar sem sveitarstjórnarmenn og aðrir sem tengjast byggðamálum á einn eða annan hátt komi saman og verði þinginu til ráðgjafar.

Þessi umræða hefur því miður orðið nokkuð karpkennd en hún færir okkur heim sanninn um hve mikið tilfinningamál er á ferðinni. Við höfum aldrei trúað því að um þessi mál yrði fullkomin eindrægni eða samstaða. Menn greinir á um alla þá þætti sem ég vísaði til áðan en við höldum að það geti orðið Alþingi og þjóðinni til góðs að taka þessi mál til umræðu á þeim forsendum sem við höfum lagt til.