Sala á greiðslumarki ríkisjarða

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 15:28:25 (3703)

2002-01-29 15:28:25# 127. lþ. 62.94 fundur 284#B sala á greiðslumarki ríkisjarða# (umræður utan dagskrár), Flm. LB
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[15:28]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim sem hafa tekið þátt í þessari umræðu og framlag þeirra til hennar. Ég held að nauðsynlegt sé að taka fram hér strax í upphafi, vegna þess sem kom fram hjá hæstv. ráðherra, að í svari hans til mín kemur fram að greiðslumark sé ekki metið sérstaklega í verði jarðanna. Ég held að það þurfi því að liggja alveg fyrir í þessari umræðu, virðulegi forseti, því af orðum hans áðan mátti ráða að þetta væri með einhverjum öðrum hætti.

Ég vil líka mótmæla því, virðulegi forseti, að þetta sé einvörðungu leikur að tölum eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra. Það liggur fyrir á markaði hvert verðgildi þessa framleiðsluréttar er, hvað menn eru tilbúnir að greiða fyrir hann og vitaskuld verður að taka mið af því í þessari umræðu.

Ég vil líka taka undir með hv. þm. Kjartani Ólafssyni og hv. þm. Ólafi Björnssyni að við erum komin á leiðarenda í þeirri aðferðafræði sem hefur verið stunduð hingað til. Það verður að endurskoða mat á þessum jörðum. Og það verður að endurskoða mat á þessum réttindum. Það liggja fyrir dómar, sérstaklega sá dómur sem vitnað var til hér áðan, sem gera það að verkum að landbrn. verður að taka þetta til endurskoðunar. Þetta eru sérstök verðmæti sem er algerlega ófært að afhenda með þessum hætti. Enda hafa menn farið í það, sérstaklega eftir þennan dóm, að kaupa jarðirnar og selja síðan kvótann af þeim.

Virðulegi forseti. Á meðan engar reglur liggja fyrir um það á hvern hátt þetta er gert og á meðan engar reglur tryggja að allir standi jafnir í þessum málum er ekki hægt að una við þetta.

Eftir þessa umræðu stendur því eftir, virðulegi forseti, því miður, að ríkisjarðir með miklum verðmætum eru afhentar fyrir mjög lítið fé. Og þetta verður ráðherra að taka til gagngerrar endurskoðunar.