Verslun með áfengi og tóbak

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 17:29:28 (3736)

2002-01-29 17:29:28# 127. lþ. 62.13 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[17:29]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Um þetta frv. mætti hafa mörg orð en ég mun láta flest þeirra orða sem ég vil hafa um það bíða til 2. umr. ef svo fer að þetta frv. kemur úr efh.- og viðskn. til 2. umr.

Skipulag áfengissölu hér á landi hefur mótast af tvennu: Annars vegar heilbrigðisþættinum, heilbrigðissjónarmiðum, menn gera sér grein fyrir því að áfengisneysla er skaðvaldur fyrir marga og menn hafa viljað skipuleggja söluna með þetta í huga, halda aftur af auglýsingamennsku og grimmustu markaðsöflunum og af þeim sökum sett áfengisdreifinguna til Áfengisverslunar ríkisins.

Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. flm. og kemur reyndar fram í grg. með frv., að í seinni tíð hefur ÁTVR verið að bæta þjónustuna, opna fleiri staði, og gefið er í skyn að menn séu komnir æðinærri markaðshugsuninni að þessu leyti. En þó er því haldið fram að einkaaðilar mundu ganga enn lengra, enda segir í grg. með frv., með leyfi forseta: ,,Sjálfsagt mun neysla áfengis eitthvað aukast, ...``

[17:30]

Þetta er niðurstaða flutningsmanna og þá vegna þess að einkaaðilar væru ákafari að koma þessari vöru til neytenda. Þarna eru mörkin erfið og vandrataður hinn rétti vegur, þ.e. að tryggja góða þjónustu, tryggja gott aðgengi allra landsmanna að áfengisversluninni án þess að fara út í þessa grimmu markaðsvæðingu. Mér finnst ÁTVR hafa tekist það bærilega.

Það er rangt sem fram kom hjá hv. 1. flm., Vilhjálmi Egilssyni, að ÁTVR hafi staðið í vegi fyrir því að opna útibú. Löngum hafa legið fyrir beiðnir frá ÁTVR í fjmrn. um að opna útibú en þeim hefur ekki verið sinnt. Það er fjmrn. sem hefur staðið gegn því að slík leyfi væru veitt og menn hafa spurt í þessum sal, m.a. hef ég gert það hér áður, hvort það geti vakað fyrir fjmrn. að standa í vegi fyrir því að ÁTVR færði út kvíarnar að þessu leyti á landsbyggðinni til þess að auðvelda einkavæðinguna.

Þetta er sem sagt annar þátturinn, heilbrigðisþátturinn. Hinn þátturinn sem hefur mótað skipulag á áfengissölunni hér á landi er fjárhagslegs eðlis, peningaþáttur. Áfengi er mikilvægur skattstofn og skilar miklum fjármunum í ríkissjóð. En það er rétt sem fram kom hjá hv. 1. flm., Vilhjálmi Egilssyni, að þessa peninga má ná í með öðrum hætti, í tolli eins og reyndar er gert og þyrfti það í sjálfu sér ekki að byggja á einokun.

Hins vegar er um að ræða mjög mikla peningalega hagsmuni í áfengisversluninni. Áfengisverslunin veltir mjög háum upphæðum, mjög miklum upphæðum. Þessa peninga ásælist verslunin. Og samtök í atvinnulífinu, kaupmannasamtökin, að ekki sé nú minnst á Verslunarráðið sem hefur harðast gengið fram í því, krefjast þess að þessu skipulagi verði breytt til þess að kaupmenn geti náð í þá peninga sem núna fara í gegnum ÁTVR inn í ríkissjóð. Þarna er um mjög mikla peningalega hagsmuni að tefla og verslunin berst mjög harkalega fyrir því að ná þessum peningum inn til sín.

Þá verða menn að vega þetta og meta. Eru menn tilbúnir að láta þessa fjármuni af hendi frá ríkissjóði, fjármuni sem ella eru notaðir eða geta nýst til annarra þarflegra hluta, og eru menn tilbúnir að taka þá áhættu sem felst í því að virkja hin grimmu markaðsöfl til að koma brennivíni ofan í þjóðina?

Flutningsmenn segja að þetta frv. sé einfalt í sniðum. Það felst í því að afnema einokun ÁTVR á smásöluverslun með áfengi. Þetta mun veikja ÁTVR eitthvað, segja flutningsmenn, en framtíðin verði síðan að leiða í ljós hvert hlutskipti ÁTVR verður til frambúðar.

Ég held að þessi breyting muni torvelda ÁTVR að veita sömu þjónustu og góða þjónustu um land allt. Ég held að þetta verði til þess. ÁTVR hefur verið að stórbæta þjónustu sína í úrvali og í útsölustöðum, þ.e. fjölga útsölustöðum á liðnum árum. Ég held að þessi þróun yrði til þess að veikja stöðu landsbyggðarinnar að þessu leyti, gagnstætt því sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson heldur fram.

Þetta eru sjónarmiðin sem menn þurfa að íhuga. Þetta er nokkuð sem menn gera sér líka rækilega grein fyrir. Flestir gera sér grein fyrir þessu.

Í greinargerð með frv. er vísað til þess að samkvæmt áfengislögum veiti sveitarstjórnir leyfi fyrir áfengisútsölum og geta þær bundið leyfin skilyrðum, svo sem um staðsetningu verslunar og afgreiðslutíma. Enn fremur eru gerðar kröfur til smásöluaðilans um að hann ábyrgist öryggis- og eftirlitsbúnað húsnæðisins og afmörkun frá öðrum rekstri eftir því sem við á.

Þetta eru sjónarmið sem áður hafa komið fram hjá þeim sem hafa viljað gera þessar grundvallarbreytingar á áfengissölunni hér á landi. Þegar upp er staðið og þessi skilyrði eru skoðuð heildstætt þá kemst maður ekki hjá því að velta því upp hvort þeir aðilar sem muni fá þessi leyfi séu ekki hinir sömu og eru hér sterkastir á matvörumarkaðnum.

Hvernig er nú komið fyrir matvörumarkaðnum á Íslandi? Hefur hann ekki verið svolítið í umræðu í þessum þingsal að undanförnu? Er það ekki svo að hann er allur meira og minna kominn í einokunarhendur? Og verður það ekki þannig þegar upp er staðið að einokun ríkisins hefur verið færð í hendur þessara nýju einokunaraðila?

Þá spyr maður: Til hvers er verið að ganga þessa götu? Hverjum kemur þetta til með að gagnast? Ég held að það muni ekki gagnast notendum. Það mun ekki gagnast skattborgaranum. Það mun ekki gagnast landsbyggðinni.

Ég geri mér hins vegar fyllilega grein fyrir því að þessum aðilum sem eru að sölsa undir sig verslun í landinu er þetta að sjálfsögðu mjög að skapi. Þess vegna ganga Samtök verslunarinnar, kaupmannasamtökin og Verslunarráðið, eins hart fram í þessu máli og raun ber vitni.