Verslun með áfengi og tóbak

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 18:04:07 (3747)

2002-01-29 18:04:07# 127. lþ. 62.13 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[18:04]

Ásta Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þetta andsvar hv. þm. Ég hef um nokkurt skeið verið ósátt við áfengisstefnuna. Mér hefur fundist hún taka fremur mið af áherslu á misnotkun áfengis í stað þess að í áfengisstefnunni í heild sinni sé litið svo á sem það sé allt í lagi að drekka áfengi en taka þurfi á þeim málum sem varða misnotkunina.

Varðandi þá þrjá eða fjóra þætti sem stjórnvöld hafa gengið út frá í reglum sínum og lögum varðandi umgengni um áfengi þá snýr þetta frv. eingöngu að einkarétti til sölu á áfengi. Varðandi aðra þætti, m.a. auglýsingar á áfengi, get ég svarað því til að ég tel að það eigi að skoða það að rýmka auglýsingarþáttinn í þá veru að hann verði í anda upplýsingar, nánast á sama veg og ÁTVR hefur gert með upplýsingum um áfengi í gegnum vefinn og gegnum bæklingagerð.

Ég sé t.d. ekkert því til fyrirstöðu að blöð og tímarit, t.d. tímarit sem fjalla um mat, veiti upplýsingar um áfengi eins og þau gera í dag. Hins vegar er ég ekki tilbúin til þess að opna það á víðari grunni, leyfa auglýsingar í dagblöðum, sjónvarpi og slíkt. Ég tel að þetta eigi að vera á upplýsingagrunni og í þeim anda að umgengni um vín geti verið á menningarlegum nótum en ekki nótum misnotkunar.

Varðandi áfengiskaupaaldurinn þá var ég þeirrar skoðunar að hann ætti að lækka niður í 18 ár. (Forseti hringir.) Síðan fór ég að skoða málið --- en ég kem að því á eftir.