Áhugamannahnefaleikar

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 16:44:02 (3925)

2002-02-04 16:44:02# 127. lþ. 68.10 fundur 39. mál: #A áhugamannahnefaleikar# frv. 9/2002, KF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[16:44]

Katrín Fjeldsted (andsvar):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður taldi að ruglað væri saman ólympískum hnefaleikum og atvinnumannahnefaleikum og ég held að það sé ekki rétt hjá þingmanninum. Það er auðvitað gerður skýr greinarmunur á þessum tveimur greinum --- nema hvað eitt atriði varðar og það er áverki á heila. Þar er ástandið nefnilega þannig að heilinn er eins í þeim sem eru að keppa í atvinnuhnefaleikum og í áhugamannahnefaleikum. Heilinn hefur ekkert mjög margar leiðir til að bregðast við áverka af því tagi sem höfuðhögg er. Allar þær greinar sem ég hef lesið um þetta mál segja að höfuðhlífar verji ytra borð höfuðsins, verji eyrun t.d., ytri eyru, og höfuðleður og slíkt, en ekki heilann. Það skýrist af því að heilinn hreyfist á öðrum hraða heldur en höfuðkúpan. Hann er fljótandi í vökva og festur með fíngerðum vefjum sem geta mjög auðveldlega skaddast við högg. Það er mjög sérkennilegt að þetta skuli vera svona í þessari íþrótt, boxi, en ekki í sama mæli t.d. í fótbolta, þegar menn skalla bolta þá virðist ekki verða sams konar skaði á heilanum. Hvort það hefur með stefnu áverkans að gera, veit ég ekki. En a.m.k. er þetta einkennandi fyrir box. Telur þingmaðurinn að menn eigi bara að leiða slík atriði hjá sér?