Áhugamannahnefaleikar

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 16:45:56 (3926)

2002-02-04 16:45:56# 127. lþ. 68.10 fundur 39. mál: #A áhugamannahnefaleikar# frv. 9/2002, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[16:45]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ekki ætla ég út í læknisfræðilegar deilur við virtan lækni. En eitt ætla ég þó að hætta mér út í: Ég hygg að ekki séu allir heilar eins til allrar hamingju. Fólk hugsar ekki eins. Hins vegar má kannski segja að starfsemi heilans sé nokkuð eins.

Það er held ég ekki rétt hjá þingmanninum, og ég treysti mér til að fullyrða það, að sambærileg högg eru ekki veitt í ólympískum hnefaleikum og þungavigtarhnefaleikum hjá mönnum eins og Mike Tyson eða Múhameð Alí þegar hann var upp á sitt besta o.s.frv., einfaldlega vegna þess að þetta er ekki sama íþróttagreinin. Aðrar reglur gilda. Þar að auki má benda á að lotur eru mun styttri, leikurinn stendur skemur yfir og leikurinn er stöðvaður af minnsta tilefni, mun oftar í ólympískum hnefaleikum. Síðan bætast við þær hlífar sem hv. þm. nefndi hér.

Ég vil taka mér það bessaleyfi og bjóða hv. þingmanni í heimsókn með mér á einhverja æfingastöð þar sem stundaðar eru æfingar í ólympískum hnefaleikum, eða alla vega aðstaða er til staðar, svo við getum nú farið í smávettvangsrannsókn og borið það síðan saman við einhvern heitan leik úr þungavigt undir ágætri lýsingu Bubba Morthens og Ómars Ragnarssonar og athugað hvort við munum ekki vera sammála um að hér sé um tvær ólíkar íþróttagreinar að ræða.