Áhugamannahnefaleikar

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 16:57:45 (3933)

2002-02-04 16:57:45# 127. lþ. 68.10 fundur 39. mál: #A áhugamannahnefaleikar# frv. 9/2002, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[16:57]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég hef lengi haft grun um að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson sé maður glöggskyggn, rökfastur og framsýnn. Eftir stutta en afskaplega beinskeytta ræðu hans sannfærðist ég um að sá grunur minn er á rökum reistur. Hv. þm. lýsti því hvernig hann hefði unnið málið afskaplega málefnalega, kynnt sér hliðar þess, kynnt sér skýrslur frá læknum, því í heilbrigðisnefnd Íþróttasambandsins sitja einmitt læknar, skoðað hvað er að gerast bæði hérlendis og erlendis og dregið síðan ályktun af því og lýst yfir stuðningi. Ég vil því fagna þessari afstöðu.

En svo rétt út af lokaorðum hv. þm. vil ég hvetja hann til þess að koma með mér og hv. þm. Katrínu Fjeldsted til þess að skoða búnað sem hugsanlega í framtíðinni má nota löglega, en þar er búnaður. Það eru engin brot á landslögum að einstaklingar hittist til þess að dást að slíkum búnaði og reyni hann aðeins. (Gripið fram í: Og lagt hefur verið til að verði lögleiddur.)