Áhugamannahnefaleikar

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 17:23:24 (3937)

2002-02-04 17:23:24# 127. lþ. 68.10 fundur 39. mál: #A áhugamannahnefaleikar# frv. 9/2002, SJS
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[17:23]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hef tjáð mig áður ítarlega um þetta mál við fyrri umræður á fyrri þingum, mörgum þingum. Þetta er gamall kunningi og kannski er þess tæplega að vænta að mörg ný sjónarmið skjóti upp kollinum hvort sem það er rætt eilítið lengur eða skemur. Ég held að ég fari því þá leið að vísa til fyrri fundahalda og ræðuhalda af minni hálfu um þetta mál. Í aðalatriðum eru viðhorf mín söm og fyrr í þessu efni. Ég hef verið í þeim hópi sem hefur talið rétt að viðhalda banni á hnefaleikum. Ég viðurkenni fúslega að það eru rök bæði með og á móti í þessu máli eins og oft er og það er ekkert merkilegt við það að menn komist að mismunandi niðurstöðu. Það sem mestu máli skiptir, finnst mér, er að menn ræði hlutina efnislega og heiðarlega og virði síðan vel rökstudd og ígrunduð sjónarmið og þær niðurstöður sem menn komast að.

Ég verð að segja eins og er að ekki mundi ég treysta mér til að gera athugasemdir við eða gagnrýna það að þingmaður kæmist að jafn vel ígrundaðri og rökstuddri niðurstöðu og hv. þm. Katrín Fjeldsted hefur gert, og fært fram hér í umræðum, bæði nú og fyrr, ákaflega sterk og málefnaleg rök, og vitnað til margvíslegra gagna. Menn þurfa svo ekkert endilega að verða sammála hv. þm. Þeir geta komist að þeirri niðurstöðu að eftir sem áður vilji þeir lögleyfa keppni í hnefaleikum af því að önnur sjónarmið, aðrir hlutir, vegi þar þyngra og séu rétthærri. Ég er sem sagt ekki þeirrar skoðunar og er sannfærður um, eftir að hafa kynnt mér þetta eins og ég best get, að við eigum að hafa kjark til að setja okkur reglur í þessum efnum eins og á fjölmörgum öðrum sviðum. Verði það niðurstaðan --- ef við lítum svo á að það að banna í fyrsta lagi auðvitað atvinnumannahnefaleika, sem allir virðast vera sammála um, og þá í öðru lagi t.d. að banna keppni og æfingar ,,maður á móti manni`` í áhugamannahnefaleikum þó að við leyfðum kannski æfingar að öðru leyti --- eru það ósköp einfaldlega ákveðnar reglur sem við setjum um tiltekna hluti hér í okkar landi eins og við gerum á fjölmörgum öðrum sviðum. Ég held að enginn maður geti gert lítið úr því eða ýtt til hliðar rökum sem eru færð fram og miða að því að draga úr hættu á alvarlegum slysum og heilsuskaða. Þannig reglur erum við að setja úti um allt.

Menn eru fljótir að gleyma. Í þessu sambandi væri fróðlegt að rifja upp umræður sem urðu þegar öryggisbelti voru lögleidd í bifreiðar. Þá voru uppi þau sjónarmið að þetta væri óþolandi skerðing á persónufrelsi manna. Þau heyrast ekki lengur. Það er algjörlega óumdeilt að þetta var skynsamleg ráðstöfun sem hefur forðað mörgum alvarlegum slysum. Ef ekki hefði komið til það átak sem þarna var gert hefðu margir beðið skaða af veru sinni í umferðinni sem ekki gera það í dag. Þetta liggur ljóst fyrir. Menn sem sagt lögleiða öryggi, það er skylda að spenna beltin í umferðinni.

Nú finnst mönnum þetta kannski ekki alveg sambærilegt. Ég er ekki að leggja þessa hluti að jöfnu við þá sem hér eiga í hlut. Ég er að benda á að í raun og veru erum við alltaf, hér á Alþingi, að velta fyrir okkur sambærilegum hlutum þegar við erum að móta stefnu og taka af skarið um hvað sé leyfilegt og hvað ekki, hvaða reglur gildi. Hversu gamlir eiga menn að vera þegar þeir fá bílpróf? Á að lögleiða hjálma við notkun reiðhjóla eða annað í þeim dúr? Til hvers er verið að þessu öllu saman? Er það vegna þess að menn hafa gaman af að setja reglur eða af því að menn vilja flækja líf fólks, vilja hafa vit fyrir því?

Nei. Hið siðaða samfélag mannanna hefur komist að þeirri niðurstöðu að okkur sé fyrir bestu að hafa ákveðna regluskipan í samfélagi okkar og það sé réttlætanlegt með vísan til almannahagsmuna að innleiða ákveðnar takmarkanir á ýtrasta frelsi einstaklinga til þess að gera það sem þeim sýnist. Þetta erum við alltaf að gera. Þess vegna kaupi ég ekki röksemdirnar um að þetta sé einhvers konar sjálfs\-ákvörðunarréttur. Það liggur við að menn séu að líkja þessu við stjórnarskrárvarið frelsi einstaklinga til mannréttinda eða eitthvað því um líkt. Ég get ekki fallist á það.

Ég tel að þetta sé í raun algjörlega sambærilegt við ýmsar aðrar takmarkanir og reglur sem við setjum og landamæri sem við drögum upp þegar við ákveðum hvað sé leyfilegt og hvað ekki í samfélagi okkar. Ævinlega þarf að rökstyðja vel takmarkanir af þessu tagi gagnvart frelsi einstaklinga. Það er alveg ljóst og það á aldrei að afgreiða þá umræðu neitt billega. En það á heldur ekki á hinn bóginn að láta eins og það sé hin almenna regla í okkar samfélagi að menn geti gert það sem þeim sýnist. Hvernig yrði samfélagið þá? Ætli mundi þá ekki þurfa að endurskoða ærið margt ef við almennt féllum fyrir þessum röksemdum, að hlutir af þessu tagi ættu bara að afgreiðast ósköp einfaldlega með þeim hætti að svona löguðu ættu menn öllu saman að ráða sjálfir?

[17:30]

Herra forseti. Ég er sem sagt þeirrar skoðunar að rétt sé að viðhalda þessu banni, það sé réttlætanlegt að hafa þá takmörkun, einfaldlega vegna þess að með því sé ljóst að við munum koma í veg fyrir alvarlegan skaða sem annars verður samfara iðkun þessarar íþróttar þó áhugamannahnefaleikar séu og að sá skaði er mjög sérstaks eðlis. Höfuðáverkarnir hafa tilhneigingu til að vera miklu oftar en í öðrum tilvikum varanlegur skaði sem aldrei fæst bættur og eru mjög sérstaks eðlis.

Það er stundum notað sem rök í þessu máli að Ísland sé eina landið sem ekki leyfi þessa svokölluðu áhugamanna- eða ólympísku hnefaleika. Það er út af fyrir sig ekkert að því að menn bendi á slíkt og hljóti að krefja um rök fyrir því en það í sjálfu sér afgreiðir málið ekki. Við gætum haft alveg rétt fyrir okkur og allir hinir í raun betur fylgt okkar fordæmi. Það hefur stundum gerst að Ísland hafi haft rétt fyrir sér. Ísland hefur riðið á vaðið í málum, brotið ísinn og þróað réttinn í heiminum. Það hefur kannski ekki verið í sambærilegum tilvikum sem ég man eftir en við getum tekið sem dæmi hafréttarmál og annað. Þar hefur Ísland þorað að hafa sérstöðu.

Það hefur oft verið litið til Íslands sem glæsilegs fordæmis og menn eru mjög stoltir af því núna að Ísland sé að brjóta í blað, t.d. í sambandi við fæðingarorlof. Þýðir það endilega að við höfum rangt fyrir okkur með að hafa rétt mæðra og feðra jafnan til fæðingarorlofs þó að engin önnur þjóð í heiminum hafi það svo vitað sé? Nei. Það getur vel verið að eftir 5--10 ár verði aðrir komnir á fulla ferð við að þróa þetta í svipaða átt. Gæti ekki vel verið að þróunin ætti eftir að verða sú að menn annaðhvort takmörkuðu eða bönnuðu einnig áhugamannahnefaleika, alla vega keppni, eða bönnuðu högg fyrir ofan axlir? Allt er þetta í umræðunni og það merkilega er að einmitt á þeim árum sem við höfum rætt um þetta mál á þingi, sem eru orðin nokkur --- þó að frv. hafi verið fellt hafa menn ekki látið staðar numið --- hefur orðið talsverð þróun í umræðunni um þessi mál eins og hér hefur rækilega verið vitnað til af ræðumönnum. Þar hafa samtök lækna og fleiri heilbrigðisstétta verið í fararbroddi og er svo komið að þessi mál eru komin fyrir alvöru á dagskrá í allmörgum löndum, hvort ekki beri að taka til alvarlegrar skoðunar að gera breytingar og fara út í frekari takmarkanir á ákveðnum íþróttum sem hafa í för með sér hættu á alvarlegum skaða, þ.e. liggi það að einhverju leyti í eðli íþróttarinnar.

Hér er ekki bara um íþróttamál að ræða. Hér er líka um heilbrigðis- og öryggismál að ræða sem getur varðað almannaheill. Það er ekki einkamál manna að skaða heilsu sína. Það er í reynd nokkuð sem kemur samfélaginu við og af þeim sökum reyna menn að setja reglur, skynsamlegar reglur, hófsamlegar leikreglur til að draga úr líkum á slysum og tjóni sem við viljum reyna að komast hjá.

Ég er þeirrar skoðunar að brtt. sem hv. þm. Katrín Fjeldsted leggur til sé skynsamleg. Það væri rétt að gera þessar breytingar. Ef það mætti verða til þess að menn sættist betur á það fyrirkomulag sem við héldum eftir sem áður í aðalatriðum, þ.e. að keppni væri ekki leyfð, þá væri það til góðs og til nokkurs unnið. Þau rök stuðningsmanna hnefaleika sem ég tek helst mark á, ef ég segi eins og er og ég hef reynt að hafa eyrun opin fyrir þeim líka, hlusta á öll sjónarmið í þessu máli, eru gildi þjálfunarinnar sem menn geta sótt sér í hnefaleika, þ.e. afþreyingu, byggt upp líkama sinn og haft af bæði andlegt og líkamlegt gagn og not af því. Það finnst mér sjálfsagt að hlusta á. Og ef hægt að er að komast til móts við þessi sjónarmið með því að draga mörkin þannig að æfingarnar séu lögleyfðar og að tekið sé af skarið í þeim efnum að menn séu ekki að brjóta nein lög þó að þeir æfi sig, en keppni sé áfram bönnuð og viðureignin sem slík maður á móti manni, finnst mér sjálfsagt mál að reyna að lenda málinu þannig, þó ekki væri nema um sinn og sjá svo til hver þróunin verður.

Það yrði dálítið skrýtið ef sú yrði niðurstaðan að þetta yrði bara löglegt si svona núna, eins og frv. gerir ráð fyrir, en stæðum svo kannski frammi fyrir því eftir 5--10 ár, sem vel gæti orðið niðurstaðan, að þá væri búið að innleiða takmarkanir að þessu leyti á vettvangi Ólympíusambandsins eða á evrópskum vettvangi sem við þyrftum að taka mið af. Ég er hallur undir að styðja þessa brtt. og mundi að henni samþykktri styðja þetta frv. en annars mun ég greiða atkvæði gegn því.

Menn hafa rætt hér mikið um aðrar íþróttir og meiðsl í öðrum íþróttum. Það er út af fyrir sig eðlilegt þó að allur slíkur samanburður sé náttúrlega vandasamur. Sá sem hér talar getur talað af nokkurri reynslu í þessum efnum. Ég hef stundað allmargar íþróttir um dagana og fengið ýmsar skrokkskjóður á þeim ferli, satt best að segja. Ég var um árabil keppnismaður í frjálsum íþróttum, í knattspyrnu, í blaki og fleiri greinum. Ég hef t.d., svo maður reki ,,afrekasöguna`` í þessum efnum, um helstu meiðsli á ferlinum, tognað ákaflega illa í keppni í fimmtarþraut einu sinni og var nánast frá í hálft ár. Ég hef farið úr liði á nokkrum fingrum í blaki og gengið um gipsaður og spelkaður. Ég hef, eins og einhverjir muna, slitið hásin við knattspyrnuiðkun og gladdi félaga mína hér á þingi með því að staulast um á hækjum í nokkrar vikur fyrir tveimur árum. Ég hef fengið ýmsa fleiri pústra, verið saumaður saman á mér vinstri lófinn o.s.frv.

Þá gætu menn svo spurt: Hvað er þessi maður að tala á móti hnefaleikum, sem er allur saman meira og minna benslaður og skrúfaður saman eftir íþróttaiðkun, þó það sé kannski fulldjúpt í árinni tekið? Sá er munurinn á að í engum af þessum tilvikum var ætlunin, það var ekki beinlínis fólgið í íþróttinni sem ég var að stunda, að meiðslin hlytust af henni sem slíkri, ekkert frekar en ef menn snúa sig í fjallgöngu eða annað því um líkt. Sá er líka munurinn á að ég er nokkurn veginn jafngóður af öllum þessum meiðslum, einfaldlega vegna þess að þarna var ekki um að ræða skaða af því tagi, ég var kannski heppinn í flestum þeim tilvikum, að þetta hefur jafnað sig og ég hef náð fullri heilsu á nýjan leik. En ég veit vel að ef ég hefði einhvern tíma í þessu öllu saman, t.d. við iðkun hnefaleika, orðið fyrir varanlegum höfuðáverka þá væri ekki því til að dreifa, að það hefði bara jafnað sig, gróið aftur saman og orðið í lagi.

Þar er komið að vendipunkti og skurðpunkti þessa máls. Við verðum að líta til eðlis þeirra hluta sem þarna geta gerst. Tölfræðin ein, tíðnin, er mér ekki fullnægjandi röksemd til þess að afgreiða þetta með slysin og skaðann út frá þeim samanburði vegna þess að eðli meiðslanna skipta miklu máli. Það hlýtur að þurfa að skoðast í hverju tilviki.

Þá er kannski eftir eitt af því sem ég ætlaði að nefna í sambandi við þessa almennu röksemdafærslu með eða móti málinu, sem mér finnst standa upp úr eða vera tilefni til að staldra við, þ.e. að ýmsar aðrar hliðstæðar eða sambærilegar og mjög hættulegar íþróttagreinar séu leyfðar. Þar eru nefndar austrænar bardagaíþróttir sem hingað hafa borist á síðustu árum. Þá finnst mér menn komnir út á þá hættulegu braut í raun og veru að réttlæta eitt böl með því að benda á annað. Ef svo er að hér séu enn fremur í gangi alvarlegar og hættulegar íþróttagreinar sem hafa í för með sér miklar líkur á mjög alvarlegum varanlegum skaða, t.d. höfuðáverkum, í sparkboxi eða hvað það heitir, þá eru það ekki rök fyrir því að leyfa þetta eða hvað? Við fellum ekki umferðarlögin úr gildi vegna þess að einhverjir brjóti þau eða hættum að takmarka hámarkshraða til að reyna að halda niðri hraða og slysum í umferðinni af því að einhverjir brjóti þá reglu eða af því að eitthvert annað hættulegt atferli er leyft. Við skulum þá líta á þessa hluti.

Hvað hafa Norðmenn ákveðið? Þeir hafa ákveðið að fara í þetta mál í heild sinni. Það er út af fyrir sig rétt að það á að vera eitthvert samræmi í hlutunum þannig að niðurstaðan verður þá væntanlega sú að annaðhvort setjum við samræmdar reglur sem taki með ,,sambærilegum hætti``, eftir því sem hægt er og um sambærilega hluti er að ræða, á þessu öllu. Við sem sagt annaðhvort takmörkum allt með sambærilegum hætti eða leyfum allt með sambærilegum hætti. Það held ég að hljóti að verða niðurstaðan, frekar en sú að nota þessa einföldu röksemdafærslu til að afgreiða málið.

Ég er eiginlega viss um að þróunin verður í þá átt að rannsaka þessa hluti betur. Það stendur upp úr. Það þarf, af því að það er erfitt að leiða fram óyggjandi sannanir, bæði viðamiklar og langstæðar rannsóknir til. Þótt mikið hafi verið skoðað er það samt svo að þar mætti betur gera. Með allri nútímatækni og möguleikum hljóta rannsóknarniðurstöður á þessu að sjá dagsins ljós á komandi árum og svara betur spurningunum, þeim áleitnu spurningum sem uppi eru. Þá vissum við betur hvar við stæðum í þeim efnum.

Í öðru lagi er ég viss um að við munum sjá áframhaldandi þróun og aðgerðir í þá átt að draga úr líkum á alvarlegum slysum og varanlegu heilsutjóni á þessu sviði eins og öðrum. Það er eiginlega alveg öruggt því að við erum alltaf að leita eftir betra og öruggara umhverfi. Þá lendum við í þessu vali, að setja reglur og beita ákveðnum takmarkandi ákvæðum til að reyna að gera umhverfi okkar öruggara og betra og draga úr líkum á skaða og tjóni.

Vandinn við þetta er auðvitað sá, eins og í svo mörgum öðrum tilvikum, að segja má að allir þeir sem mundu annars stunda þessa íþrótt sér til ánægju og skemmtunar, án þess að verða fyrir nokkrum skaða, gjaldi þeirra ráðstafana sem við gerum til þess að hindra slysin. En er það ekki alltaf þannig með óhöppin, sem enginn ætlar sér að verða fyrir? Að sjálfsögðu ætlar enginn af þeim einstaklingum sem vill stunda hnefaleika að lenda í því að verða einn af þeim örfáu sem slasast. Er það? Nei. En við vitum að að mun gerast, það verða einhverjir óheppnir. Þá er spurningin: Getum við horft fram hjá því? Verðum við ekki bara að gera það upp við okkur hvaða reglur við ætlum að hafa í þessum efnum?

Ég tel sem sagt fullnægjandi rök standa til þess að viðhalda þessu banni eða þessum takmörkunum. Ég held að það standi síst tæpar að rökstyðja og réttlæta út frá mikilvægum almannahagsmunum, sem við séum þar með að reyna að gæta eða verja, að beita þessum takmörkunum frekar en mörgum öðrum sem við gerum í samtímanum og væri hægt að fara yfir í löngu máli.

Ég held að ég láti þetta duga að þessu sinni, herra forseti, og kannski kann að fara svo að þetta verði síðasta ræðan sem undirritaður flytur um þetta mál um nokkurt skeið.