Áhugamannahnefaleikar

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 18:11:02 (3944)

2002-02-04 18:11:02# 127. lþ. 68.10 fundur 39. mál: #A áhugamannahnefaleikar# frv. 9/2002, KVM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[18:11]

Karl V. Matthíasson (andsvar):

Herra forseti. Þetta er rétt sem hv. þm. sagði um að gott er fyrir menn að sigra. En það er ekkert endilega víst að það þurfi að vera í hnefaleikum. Menn geta sigrað og öðlast stolt við að keppa í öðru en þessari grein.

Ég skil ekki af hverju svo nauðsynlegt er að leggja af stað í þessa grein. Mér finnst þetta allt bera keim af því sem sífellt er að aukast í fréttatímum, þ.e. auglýsingum af væntanlegum boxkeppnum sem eiga sér stað úti í Ameríku og byggjast á heiftarlegu ofbeldi. Þetta er endurspeglan þess. Því verður ekkert neitað.

Hæstv. forseti. Kannski hvarflar það ekki að hv. þm. að hugsa um boxið eins og það tíðkast í þessum sýningarsölum og stóru hringjum í hinum stóra heimi þar sem menn eru hvorki með hlífar né annað til að verja höfuð sitt. Þetta er samt endurspeglun á því. Markmið þess er að rota hinn. Einnig væri gaman að fá að heyra hjá hv. flutningsmönnum hvort þeir séu ekki hlynntir því í hjarta sínu að lögleiða bara boxið eins og það er og birtist í sjónvarpinu þar sem við heyrum síöskrandi menn lýsa því. Ungir drengir eiga að fá útrás á annan hátt.