Verslun með áfengi og tóbak

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 18:17:31 (3946)

2002-02-04 18:17:31# 127. lþ. 68.11 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[18:17]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum hér frv. til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak sem snýr að því að heimila verslunum að selja áfengi.

Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins --- ég endurtek: ríkisins --- er steingert tröll frá síðustu öld. Það helgast af þeirri trú að hægt sé að breyta og stýra hegðun fullorðins fólks. Það er trú þeirra sem héldu að þeir gætu með boðum og bönnum stýrt því hvernig annað fullorðið fólk hegðaði sér.

Hverjir eru fylgjandi boðum og bönnum, herra forseti? Jú, það er þetta forræðishyggjufólk sem heldur að það sé hægt að stýra hegðun annars fólks og þeir sem njóta þess, glæpamennirnir. Það eru smyglarar, þeir sem búa við afleiðingarnar, mjög hátt verð, bruggarar o.s.frv. Bannárin í Bandaríkjunum sýndu mönnum hvernig slíkir aðilar komast á skrið þegar gengið er of langt í boðum og bönnum.

Hver er raunveruleikinn, herra forseti, af því að reyna að takmarka sölu á áfengi með því að hafa eina verslun á höndum ríkisins sem er opin á ákveðnum tíma og er bara með útsölu á vissum stöðum? Hver er raunveruleikinn, herra forseti? Hann er sá að hér niðri í miðbæ Reykjavíkur er hægt að nálgast áfengi allan sólarhringinn, alveg sérstaklega á nóttunni. Sumt af því er meira að segja bruggað, að mér er sagt. Þannig er raunveruleikinn sem menn eru að glíma við. Svo eru menn með reglur um að banna sölu á áfengi nema í vissum verslunum. Einu sinni var það þannig að maður fékk svona dæmigerðan brúnan poka utan um flöskurnar til að undirstrika að þetta væri alveg sérstök vara.

Þá kem ég að því, herra forseti, hvað þessi takmörkun á aðgengi hefur þýtt á Íslandi. Hún hefur gert þessa vöru, sem er auðvitað ósköp venjuleg drykkjarvara, eins og kaffi o.fl., að heilagri og spennandi vöru. Þetta er einhver sérstök vara. Þetta er ekki vara eins og hver önnur, mjólk og annað slíkt, heldur sérstök vara. Íslendingar hafa mjög sérstakt viðhorf til áfengis. Það sér maður þegar maður fer með Íslendingi inn í verslun erlendis og sér svipinn á honum þegar hann sér áfengi, sterkt áfengi innan um mjólk, hveiti og sykur. Hvað hann verður hissa að svona lagað sé mögulegt og hægt.

Annað gerist með þessari takmörkun á áfengi. Menn kaupa meira áfengi í einu en ella vegna þess að þeir komast ekki alltaf í verslunina einu. Við höfum hins vegar leyft sölu á tóbaki og lyfjum hjá einkaaðilum. Þeim er treyst til þess að selja tóbak og lyf. Þess vegna skil ég ekki hvers vegna sölumenn áfengis þurfa endilega að vera opinberir starfsmenn. Af hverju mega ekki aðrir landsmenn selja áfengi? Treystum við þeim ekki? Er hætta á að þeir geri mistök? Fara þeir á skjön við lögin eða eitthvað slíkt?

Ég held að við getum yfirleitt treyst venjulegu fólki, ekkert síður en opinberum starfsmönnum. Ég vil benda á það að opinberir starfsmenn eru ekkert annað en venjulegt fólk. Yfirleitt er fólk heiðarlegt og fer að lögum þannig að ég treysti afgreiðslufólki fullkomlega til að selja áfengi í venjulegum verslunum eins og opinberir starfsmenn selja áfengi í opinberum verslunum.

Herra forseti. Við fyrri hluta þessarar umræðu ræddi hv. þm. Ögmundur Jónasson nokkuð um þátt hv. 1. flm. í málinu. Að hann væri jafnvel að gæta hagsmuna villtrar markaðssetningar, held ég að það hafi verið kallað, sem framkvæmdastjóri ákveðinna hagsmunasamtaka. En ég vil gjarnan spyrja: Má ekki jafnframt spyrja hvort afstaða hv. þm. Ögmundar Jónassonar í mörgum málum sé ekki einmitt að gæta þess að viðhalda fjölda opinberra starfsmanna þar sem BSRB, sem hann veitir forstöðu, fær þá meiri félagsgjöld? Opinberum starfsmönnum er gert að borga í stéttarfélög sín hvort sem þeir eru í þeim eða ekki. Þannig eru það náttúrlega hagsmunir hv. þm. Ögmundar Jónassonar að viðhalda fjölda opinberra starfsmanna til að fá meiri skatt.