Verslun með áfengi og tóbak

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 18:43:11 (3957)

2002-02-04 18:43:11# 127. lþ. 68.11 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., KF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[18:43]

Katrín Fjeldsted (andsvar):

Herra forseti. Ég tel ekki að með þessari tillögu sé verið að leggja til að ÁTVR verði lögð niður, og ég tel langlíklegast að samanburður á verði komi fram og að fólk muni kjósa með fótunum eins og það gerir í svo mörgum málum. Ég efast ekki um að ef úrvalið minnkar og verðið hækkar í hinum dreifðu byggðum sé það fyrirkomulag sem menn muni ekki sætta sig við. Ég bara dreg það ekki í efa.

En ég tel þvert á móti yfirgnæfandi líkur á að dreifingin geti batnað og að verðið, sem er reyndar ákveðið af stjórnvöldum fyrst og fremst, muni ekki verða hækkað í öðrum verslunum vegna þess að þá er sú verslun ekki samkeppnishæf og þá mun fólk í hinum dreifðu byggðum landsins panta sér sitt áfengi eins og það hefur gert hingað til. Ég held að þetta sé þá samkeppni við Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og reynslan muni leiða í ljós hvernig fer. Sem þingmanni Reykvíkinga finnst mér eðlilegt að kjósendum mínum og þeim sem á þessu svæði búa standi til boða fleira en verslanir ÁTVR og ég vil að það sama gildi í öðrum byggðarlögum.