Verslun með áfengi og tóbak

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 18:44:43 (3958)

2002-02-04 18:44:43# 127. lþ. 68.11 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[18:44]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Í Reykjavík eru tvær áfengisverslanir sem bjóða upp á 2.300 tegundir. Ég held að ekki bjóði margar sérverslanir í heiminum betur. Ég held að það sé tómt mál um að tala að til verði samhliða ÁTVR smásöluverslun hjá einkaaðilum. Á landsbyggðinni tryggja útibúin að lágmarki 80 tegundir. Ætla menn virkilega að ÁTVR muni reka verslanir sínar við hliðina á búðum sem hafa áfengi á boðstólum og munu að sjálfsögðu fyrst og fremst bjóða upp á þær tegundir sem seljast best? Þær munu hafa 2--3 rauðvínstegundir og hvítvínstegundir, vodka, brennivín og viskí. Þetta er það sem selst mest. En það er tómt mál um það að tala að til hliðar verði haldið uppi ríkisreknu kerfi. Að sjálfsögðu mun það ekki gerast. Menn eru að velja á milli tveggja dreifingarmáta og menn verða að sýna fram á að þetta verði til hagsbóta. Það er ákveðin stærðarhagkvæmni sem fylgir því kerfi sem við búum við. Ég held að það sé augljóst mál að þegar hún er ekki lengur fyrir hendi þarf álagningarprósentan að vera hærri. Það sem ríkið gerir er að stýra verðlagi á áfengi gegnum áfengisgjaldið. Það er síðan allt annað hvað verslunin leggur á vöruna, 11% á léttvín og 6,8% á sterka drykki. Það er þessi prósenta sem mundi hækka og þar af leiðandi mundi drykkjarvaran hækka í verði þannig að það skortir á að þessir talsmenn frjálshyggjusjónarmiða á þessu sviði sýni okkur fram á ávinninginn. Við fáum engin rök, bara trúarjátningar.