Verslun með áfengi og tóbak

Mánudaginn 04. febrúar 2002, kl. 20:47:47 (3976)

2002-02-04 20:47:47# 127. lþ. 68.11 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 127. lþ.

[20:47]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég verð að taka undir það sem hér hefur komið fram hjá fyrri ræðumönnum. Mér finnst nokkuð snautlegt að hálfu aðstandenda málsins að fylgja ekki þessu barni sínu betur úr hlaði og leggja það á sig að vera viðstaddir þessa umræðu. Það er alveg á mörkunum, herra forseti, að mér finnist eiga að láta umræðuna ganga áfram við þær aðstæður er forsvarsmenn málsins sýna ekki umræðunni þann sóma að skipta a.m.k með sér verkum eða ganga vaktir hér á móti öðrum þingmönnum, að eins og eitt stykki flutningsmaður væri hverju sinni í þingsalnum. Það er til lítils að spyrja út í frv. án þess að hafa aðstandendur þess til að spyrja út úr. Ekki þætti okkur gott ef ráðherra væri að flytja hér frv., við værum við 1. umr. um stjfrv., og viðkomandi ráðherra kæmist upp með að vera algjörlega fjarri.

Það má líka segja, herra forseti, að ef geimvera kæmi frá öðrum hnetti, hefði rekið upp á Íslandsstrendur og fylgst með umræðum á löggjafarsamkundu þjóðarinnar þennan herrans dag, þennan drottins dag, 4. febrúar, anno domini 2002, færi hún sennilega heim með þá tilfinningu, sú geimvera, að ekki væri mikið að á Íslandi, því að þar hefðu þingmenn gamnað sér við og eytt heilum degi á hinni virðulegu löggjafarsamkundu í að ræða þessi stóru mál, hvort lögleiða eigi box og hvort fara eigi með brennivín í búðirnar. Þetta er sú iðja sem menn hafa stundað í dag við löggjafarstörfin.

Ég er andvígur þessu frv., herra forseti, og þyrfti í sjálfu sér ekki öllu flóknari röksemdafærslu en þá að núverandi fyrirkomulag þessara mála hefur gefist vel. Á að breyta því sem hefur gefist vel? Ef menn eru á þeim buxunum, hvað eru menn þá að gera? Eru menn að breyta breytinganna vegna? Af hverju koma ekki talsmenn þess að breyta því fyrirkomulagi sem við höfum viðhaft og færa okkur heim sanninn um að það hafi gefist illa, að það sé þörf fyrir breytingarnar sem slíkar af einhverjum rökstuddum ástæðum? Það er ekki gert heldur er farið hér út í trúarbragðakenndar eða klisjukenndar formúlur af því tagi að þetta sé tímaskekkja þegar maður reynir að leita að rökum í þessari tiltölulega, með leyfi virðulegs forseta, ræfilslegu greinargerð. Eiginlega er helsta röksemdafærslan sú, líklega hér 3. málslið, að núverandi fyrirkomulag á verslun með áfengi sé tímaskekkja. Er þetta boðlegt, herra forseti?

Þetta orð var að vísu notað líka í morgun sem rök í máli. Þá var sagt frá því að láglaunafólkinu á járnbrautunum í Bretlandi, hinum einkavæddu járnbrautum, sem hefur tekið á sig þvílíkar kjaraskerðingar og versnandi starfsaðstæður undanfarin ár, sé nú nóg boðið og hafi farið út í verkfallsaðgerðir. Þetta mælist að sjálfsögðu ekki vel fyrir hjá þeim háu herrum sem ráða í Bretlandi. Hvað notaði Tony Blair sem rök í málinu? Jú, hann sagði að þessar aðgerðir láglaunafólksins gagnvart einkavæddu járnbrautarfyrirtækjunum væri tímaskekkja. Þetta væri ekki nútímalegt.

Er það þá þannig, herra forseti, sem við nálgumst málin, að við skellum einhverjum innihaldslausum formerkjum af þessu tagi, eins og ,,nútímalegur`` eða ,,nýtískulegur`` eða með neikvæðu formerkjunum ,,forneskja``, ,,tímaskekkja``, og þá sé bara málið leyst, en hið efnislega inntak hlutanna skipti engu máli? Það er ekki á dagskrá hvort núverandi fyrirkomulag hafi gefist vel eða illa, a.m.k. ekki af hálfu aðstandenda þessa frv.

Ég held því fram, herra forseti, að aðhaldssöm áfengisstefna Norðurlandanna, að Danmörku slepptri, hafi gefist mjög vel. Það getur enginn borið á móti því að þessum löndum hafi tekist betur en flestum öðrum í heiminum að glíma við þau vandamál sem ofneyslu þessara efna fylgja. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin notar Norðurlöndin og stefnu þeirra sem fordæmi úti um allan heim og hvetur ríkisstjórnir til að fara að fordæmi Norðurlandanna, framfylgja aðhaldssamri stefnu og glíma þannig við vandamálin.

Þjónustan sem þetta fyrirtæki okkar veitir, Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, er góð og fer batnandi. Sjálfsagt hefði fyrr mátt innleiða þar viðleitni til, mér liggur við að segja að leyfa fyrirtækinu að ganga lengra í því, að bæta þjónustu við viðskiptavini. Hér er nú einu sinni um að ræða löglegan varning í landinu. En þar hefur ekki alltaf verið við fyrirtækið að sakast. Þeir tímar hafa verið að forsvarsmenn þessa fyrirtækis á ráðherrastóli, eða stjórn sem var búin til yfir þetta fyrirtæki, hafi heldur lagst gegn því að fyrirtækið bætti þjónustuna. Mann grunar náttúrlega hvers vegna. Sem betur fer er annað viðhorf núna. Ég held að almennt fari ánægja fólks með þjónustu þessa fyrirtækis vaxandi. Það hefur gjörbreytt um aðferðir í þessum efnum, opnað nýjar gerðir verslana, verið að færa út kvíarnar og auka þjónustuna við landsbyggðina. Þar er yfirleitt almenn ánægja ríkjandi með það fyrirkomulag sem komist hefur á, einkum og sér í lagi í minni byggðarlögum sem hafa fengið litlar útsölur. Þar er auðvitað um mikla framför að ræða fyrir fólk sem áður þurfti að ná sér í þessa vöru með ærnum tilkostnaði og mikilli fyrirhöfn.

Hin opinbera verslun jafnar út flutningskostnað og birgðahald þannig að þetta er ein fárra vörutegunda sem eftir er í landinu sem landsmenn fá allir á sama verði hvar sem þeir búa. Að vísu þurfa menn að taka á sig flutningskostnaðinn ef þeir láta senda sér varninginn með póstþjónustu eða öðrum slíkum hætti í þeim byggðarlögum þar sem ekki er útsala. Og þá finna menn heldur betur fyrir flutningskostnaðinum. Það er borðleggjandi, herra forseti, að ef þessu yrði sleppt lausu og einstakir verslunaraðilar og smásalar færu að dreifa þessu um landið og selja það mundi flutningskostnaðurinn bætast við vöruverðið. Varan yrði því 10--30%, eða hvað við eigum að segja, dýrari þegar komið er út í fjarlægari byggðarlög. Sérstaklega mundi þetta gilda um bjórinn sem er náttúrlega þyngstur og mestur flutningskostnaður við.

Verðlagningin fer fram í gegnum hina opinberu verðskrá. Öllu sem lýtur að áfengisstefnunni og þeim markmiðum eða ákvörðunum sem teknar hafa verið um aðgengi, aldursmörk, verðlagningu og annað, er auðvelt og handhægt að hrinda í framkvæmd í gegnum verslunina sem hið opinbera hefur sjálft með höndum. Þarna mundu menn meira og minna missa algjörlega tökin á þessum hlutum, það liggur alveg fyrir. Sporin í sambandi við tóbakið hræða náttúrlega mjög í þessum efnum. Kannanir hafa ítrekað sýnt að allt upp í 80--90% söluaðila, þegar verst hefur látið, brjóta t.d. aldursmörk og unglingar, undir tilskildum aldri, geta keypt tóbak í stórum stíl.

Hagnaðarhvatinn við söluna sjálfa er aftengdur í gegnum hina opinberu verslun. Hvað gerist ef smásöluaðili, sem að sjálfsögðu er með einhverja álagningu á vörunni, vill reyna að ná endum saman eða græða sem mest hann má? Nú, hann reynir auðvitað að selja meira, nema hvað? Hann reynir með ýmsum ráðum að auka innkomuna í gegnum aukna sölu, rekur áróður fyrir vörunni, gerir hana áberandi og auglýsir með beint eða óbeint ef reglur eða lög takmarka hitt. Hann finnur til þess ýmsar leiðir af því að hann á mikilla hagsmuna að gæta.

Eins og fram kom í máli síðasta ræðumanns er hér auðvitað um stóran stabba að ræða. Það munar um hann. Hvað eigum við að giska á að smásöluálagningin, frjáls smásölu\-álagning á áfengum drykkjum í smásölu, yrði? Það er í raun sama hvort við leikum okkur með tölur, með 20%, 30%, 50% eða 100%, sem er ekki óalgeng álagning á ýmsum vörum. Þarna yrði fljótt um miklar upphæðir að ræða. Ríkið yrði fljótt í klemmu með áfengisgjaldið, þegar 10, 20, 30, 40% álagning væri búin að síga inn yfir verðlagið. Ríkið lægi undir gagnrýni þegar það væri að stilla af upphæðir áfengisgjaldsins. Við gefum okkur væntanlega að það yrði áfram tekið og fyrst um sinn yrði kannski áfengisgjaldið uppistaðan í innkomunni og smásöluaðilarnir yrðu að gæta hófs í álagningunni því að annars færi verðið upp úr öllu valdi.

En hver segir að þau hlutföll haldist? Er ekki sú hætta borðleggjandi að smátt og smátt minnkaði hlutdeild ríkisins í álagningu eða gjaldtöku af þessari vöru og smásöluaðilarnir hirtu meira til sín? Hver sæti uppi með kostnaðinn? Hver sæti uppi með milljarðatugakostnað sem er samfara ofneyslu áfengis í landinu? Jú, fyrst og síðast ríkið, samfélagið sem fær þann bagga á herðarnar, þann reikning í hausinn. Auðvitað verður af þessu stórkostlegt tap líka úti í atvinnulífinu, svo ekki sé minnst á það sem auðvitað er sárast og alvarlegast, þær fórnir sem á hverju ári eru færðar á það altari, fjölskyldulíf og lífshamingja fólks, vegna vandamála sem af ofneyslu áfengis stafa.

Þarna er um grundvallaratriði að ræða. Það þýðir ekki fyrir menn að ætla að afgreiða þetta sem eitthvað léttvægt. Þeim rökum sem meira voru notuð í deilum um þessi mál á fyrri áratugum, aðgengisrökin sjálf, að halda ætti aftur af neyslunni með því að takmarka aðgengið sem allra mest, hafa auðvitað þokað til hliðar. Ég held ég að það sé breyting sem breyttir tímar hafa borið með sér. Ég segi fyrir mitt leyti að ég beiti þeim ekki í málflutningi mínum með sama hætti og ég hefði kannski gert fyrir 15--20 árum, ósköp einfaldlega vegna þess að þar viðurkenni ég að tíðarandinn er breyttur og að ýmsu leyti aðrar aðstæður uppi. Þau eru þó til staðar. Það hefur ekki breyst að það er áfram ákveðið samhengi á milli aðgengisins og neyslunnar, eitthvert samband þar á milli, einhver tenging.

Nú horfa menn meira á aðra þætti og ég held að menn eigi að beina sjónum að þeim, þ.e. að reyna sérstaklega að berjast gegn vaxandi áfengisneyslu ungmenna. Hún er þrátt fyrir allt langhættulegust, misnotkunin er þeim mun hættulegri sem hún byrjar neðar í aldurshópum. Þá skipta aldursmörkin og lagaákvæði um það mjög miklu máli og að þeim sé hægt að framfylgja. Allar kannanir sýna að hvert eitt ár sem meðalneyslualdurinn færist niður skapar gríðarleg viðbótarvandamál. Þetta þekkja menn af biturri reynslu í þeim löndum sem hafa sætt slíkri þróun á undanförnum áratugum. Það er því miður víða þannig og þar á meðal hér. Þar hefur auðvitað áfengur bjór haft sín áhrif, það er alveg ljóst.

[21:00]

Síðan til viðbótar, herra forseti, er ég andvígur þessum breytingum vegna þess að ég held að þjónustan muni beinlínis versna, vöruúrval minnka og gæði verða misjafnari gagnvart a.m.k. ýmsum landshlutum í þessu sambandi. Ef við berum það saman annars vegar að ÁTVR haldi áfram þeirri þróun sem þar er í gangi, að bæta við útsölustöðum í fleiri og fleiri byggðarlögum á landinu, og þar gætu menn að sjálfsögðu sett sér einhver viðmið sem Alþingi gæti komið inn í að móta, t.d. ef stefnt yrði að því að þar sem því yrði við komið væri yfirleitt ekki meira en klukkustundar akstur eða þar um bil til næsta útsölustaðar eða staðir yfir ákveðnum íbúamörkum hefðu yfirleitt slíka þjónustu, og í raun og veru er unnið samkvæmt slíkum viðmiðunum. Það er mér ljóst. En þetta tekur sinn tíma, auk þess sem stutt er síðan að um þetta var kosið á hverjum stað. Lengi vel voru fámennustu staðirnir útilokaðir vegna hreinlega ákvæða sem voru í lögum um lágmarksíbúafjölda. Þetta er nú breytt þannig að þróun er í gangi sem ég held að sé að sætta fólk mun betur við það fyrirkomulag sem við lýði er. Það hefur mjög mikið gildi og mikla kosti.

Við erum ekki að tala um venjulegt verslunarmál. Þetta tal um frelsi og verslunarhætti og annað slíkt byggir að því leyti til á grundvallarmisskilningi, fyrirkomulagið á Norðurlöndunum er alls ekki byggt á þeim sjónarmiðum, heldur er þetta heilbrigðismál. Þetta er samkvæmt skilgreiningu hluti af heilbrigðisstefnu ríkisstjórna Norðurlandanna fjögurra. Því var það að þegar þær sameiginlega voru í viðræðum við Evrópusambandið sem hluti af EFTA-hliðinni í árdaga viðræðna um EES-samninginn, og það stendur í þeim samningi, þá gerðu ríkisstjórnir Norðurlandanna fyrirvara um fyrirkomulag sitt á smásöludreifingu áfengis eða ríkiseinkaverslun með áfengi, bæði á heildsölu- og smásölustigi, að þetta væri hluti af heilbrigðisstefnu Norðurlandanna. Það er skýr fyrirvari í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið þar sem þetta er tekið fram. Að vísu hefur verið að þessu sótt af frelsishaukunum, bæði innan Norðurlandanna og Evrópusambandsmegin frá, því að auðvitað vilja menn koma höndunum yfir gróðann á þessu sviði viðskipta eins og öllum öðrum.

En ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti: Hefur einkaframtakið og gróðaöflin í þjóðfélaginu ekki nægilega víðan vígvöll, breiðan og stóran og langt til fjalla þó þau þurfi ekki að fara að græða á vímuefnunum líka, þó þau þurfi ekki að fara að græða á hinum lögleyfðu vímuefnum líka? Ég held að enginn skortur sé á viðskiptatækifærum og möguleikum fyrir áhugasama einkarekstrarmenn í þjóðfélaginu og það megi láta þetta svið í friði að ósekju. Ég held það. Menn geta fengið útrás fyrir löngun sína til að spreyta sig í viðskiptum og versla með, mér liggur við að segja eiginlega allt milli himins og jarðar mín vegna. En er nú ekki hægt að láta þetta í friði? Með sama hætti og maður biður stundum um það þegar ofstækið gengur fram af manni í einkavæðingaráráttunni, að kjarninn í velferðarkerfinu fái nú að vera í friði, að eitthvað sé mönnum heilagt. En fátt eitt er eftir ef menn þurfa í verslunarrekstrinum endilega að fara að okra á brennivíni líka. Ef menn vilja fara aftur til þeirra tíma þegar það var, þá geta menn sjálfsagt lesið sér til um hversu mikil blessun það var þjóðinni á öldum fyrr.

Herra forseti. Danir hafa skorið sig nokkuð úr Norðurlöndunum hvað áfengispólitík snertir og þar er þessi varningur einmitt í öllum búðum. Hvort sem það er nú ein ástæðan eða fleiri koma til þá er staðreynd að langmest er drukkið í Danmörku á öllum Norðurlöndunum. Það er hægt að bera niður víðar en í Danmörku til að kynnast danskri áfengispólitík. Félagar okkar og vinir handan sundsins, Grænlendingar, voru svo ógæfusamir að innleiða ásamt ýmsu fleiru danska brennivínspólitík þegar sá varningur kom þar í land. Þar hefur frá upphafi þannig hagað til, eða a.m.k. um langt árabil, að áfengir drykkir, sterkir jafnt sem veikir, eru í öllum búðum úti um allt.

Þeir sem hafa farið um fámennar og afskekktar byggðir Grænlands hafa kannski lent í því að ganga inn í pínulítinn kofa sem gamla konunglega danska Grænlandsverslunin rak. Þetta voru litlir bárujárnsskúrar í mörgum byggðum. Sums staðar stóðu þeir aleinir úti í auðninni, eins og gerðist hér á Íslandi áður þegar verslað var úr einhverjum skemmum upp af höfnum eða legum. En inni í þessum skúrum, kannski ekki nema tíu fermetrum, háttaði oft þannig til að fyrir utan þurravöru og nýlenduvöru var brennivín í hillu við hliðina á haglabyssunni og skotunum. Og þetta gat hvert mannsbarn keypt sem það vildi.

Hafa menn farið yfir það hvílík ofboðsleg ógæfa áfengið hefur verið í Grænlandi og hvernig alkóhólismi, áfengissýki er þar hrikalegt vandamál, hefur tröllriðið þjóðfélaginu með ofboðslegri slysaöldu og fleiri hlutum sem tæpast er hægt að tala um. Ef eitthvað er eiginleg, mikil og beisk ógæfa þeirri þjóð sem þar byggir, þá er það hvernig hún hefur farið á brennivíni.

Ætli hún hefði nú ekki verið betur komin, ætli Grænlendingar hefðu nú ekki verið betur staddir með aðhaldssama áfengisstefnu sambærilega þeirri sem Íslendingar og Svíar hafa kannski fremst Norðurlandanna varið og haldið úti fram undir þetta og vonandi tekst enn um sinn þó að að þessu sé sótt eins og ýmsu fleiru um þessar mundir.

Ég segi það, herra forseti, að lokum að ekki vildi ég vera í sporum þessara fjarstöddu flutningsmanna og mér finnst metnaður þeirra lítill að skilja þetta barn sitt eftir umkomulaust á þessum kvöldfundi.