Útlendingar

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 14:42:56 (4029)

2002-02-05 14:42:56# 127. lþ. 69.3 fundur 433. mál: #A útlendingar# (heildarlög) frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[14:42]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að vera með neikvæðan tón í umræðunni. Ég vil benda á að það er auðvitað undir hv. þm. sjálfum komið hvernig þeir ræða þetta mál og á hvað þeir kjósa að benda.

Ef litið er á frv. má sjá að þar eru birt öll fylgiskjöl, alþjóðlegir samningar, flóttamannasamningurinn o.s.frv. Öll þessi gögn sem skipta mjög miklu máli varðandi réttindi útlendinga og flóttamanna. Við skulum ekki blanda þessu saman. Frumvarpið fjallar ekki síst um komu ólöglegra innflytjenda, en staða flóttamanna er auðvitað allt önnur og við skulum ekki rugla því saman.

Ég vil líka, herra forseti, fá að rifja upp það sem ég sagði í upphafi framsögu minnar. Ég sagði að þegar rætt hefði verið um efni frv. hefði verið litið sérstaklega til þróunar á sviði stjórnsýsluréttar og mannréttinda svo og þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi, bæði norrænu og evrópsku, og aðildar að ýmsum mannréttindasamningum og flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna, og frv. tæki mið af 2. mgr. 66. gr. stjórnarskráinnar.

Ég held því að það sé alveg skýrt og ljóst að þarna er auðvitað gengið út frá ákveðnum mannréttindaákvæðum og alþjóðasamningum.