Útlendingar

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 14:44:33 (4030)

2002-02-05 14:44:33# 127. lþ. 69.3 fundur 433. mál: #A útlendingar# (heildarlög) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[14:44]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Við ræðum mjög merkilegt frv., frv. til laga um útlendinga. Í því birtist stefna íslenskra stjórnvalda gagnvart útlendingum. Við höfum rætt þetta frv. áður, það er ekki mikið breytt núna, en við höfum rætt það áður og ég held að það sé ekki stórt upp í sig tekið þó maður segi sem svo að það frv. sem kom inn á þingið í fyrra hafi ekki verið mjög frjálslynt. Ég held að það sé ekki harður dómur á frv. sem kom inn í fyrra. Það dagaði reyndar uppi og því lauk ekki umræðunni hvað það frv. varðaði.

Hins vegar kom fram í framsögu hæstv. dómsmrh., að mér fannst, að hæstv. ráðherra lagði áherslu á að allshn. mundi hnykkja á tilteknum þáttum. Og allir þeir þættir sem hún lagði áherslu á lutu að því að herða reglur um möguleika útlendinga á að koma hingað.

Þess vegna spyr ég hæstv. dómsmrh. hvort í frv. felist breytingar á stefnu íslenskra stjórnvalda gagnvart útlendingum frá því sem verið hefur og frá því í fyrra. Ég get tekið kannski sem dæmi að m.a. orðaði hæstv. ráðherra það á þá leið að vegna breyttra aðstæðna í heiminum væri hætta á að útlendingum fjölgaði, þar sem einar dyr hugsanlega væru að lokast gætu aðrar opnast, ef ég man þetta rétt úr ræðu hæstv. ráðherra.

Því spyr ég hæstv. ráðherra: Er verið að kynna herta stefnu íslenskra stjórnvalda gagnvart þeim útlendingum sem vilja koma til landsins með frv.?