Útlendingar

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 15:27:14 (4040)

2002-02-05 15:27:14# 127. lþ. 69.3 fundur 433. mál: #A útlendingar# (heildarlög) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[15:27]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hæstv. dómsmrh. að full ástæða er til að vera á varðbergi gegn slíku fólki. Ég vil taka undir þetta.

Hins vegar ber okkur að vera á varðbergi gagnvart því að við virðum grundvallarreglur réttaríkisins. Mér nægir ekki að vísa í það sem er að gerast með öðrum þjóðum í þessum efnum, að það sé rétt vegna þess að allir hinir eru að gera það. Að sjálfsögðu ber okkur að hafa sjálfstætt mat og sýna fulla dómgreind á okkar eigin forsendum þegar við myndum okkur skoðun á þessu lagafrv. sem öðrum.

Ég get upplýst hæstv. dómsmrh. um að víða um lönd, víða á Schengen-svæðinu svo dæmi sé tekið, hafa menn af því þungar áhyggjur að verið sé að ganga of langt í því að efla eftirlitshlutverk lögreglu. Margir hafa af þessu þungar áhyggjur. Ég reyndi að færa rök fyrir því hvers vegna mér fyndist ástæða til þess að við stöldruðum við í þessu efni. Við erum búin að færa valdið í mjög ríkum mæli yfir á herðar ríkislögreglustjóra. Það er hann sem tekur ákvörðun um það hverjir eru skilgreindir varasamir borgarar sem geti truflað friðinn og eru settir á svartan lista Schengen og úthýst þar af leiðandi frá öðrum Schengen-ríkjum. Það eru alla vega heimildir til slíks.

Ég færði reyndar rök fyrir því á sínum tíma þegar Schengen-upplýsingakerfið var til umræðu í þinginu að við værum að ganga of langt í því efni að færa valdið til lögreglustjóra og að réttur einstaklingsins væri fyrir borð borinn.