Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 19:33:42 (4109)

2002-02-05 19:33:42# 127. lþ. 69.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[19:33]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Eins og okkur er kunnugt hefur þessi tillaga vakið athygli á Austurlandi vegna þess að Austfirðingar skilja það vel að með henni er verið að reyna að slá á frest þeim framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru við Kárahnjúka. Þess vegna er mjög athyglisvert ef niðurstaðan af umræðunum verður sú, hjá þeim sem flytja málið, að þeir hafi engar hugmyndir uppi um hvaða atvinnurekstur geti komið í staðinn fyrir Kárahnjúkavirkjun og hvaða atvinnurekstur getur komið í staðinn fyrir álver við Reyðarfjörð.

Hv. 17. þm. Reykv., Kolbrún Halldórsdóttir, stóð upp áðan í andsvari við mig og hafði að fyrra bragði orð á því að hún hefði einhverjar slíkar tillögur uppi í erminni. Ég hef beðið hv. þm. og alla þingmenn Vinstri grænna sem talað hafa að skýra frá tillögunum en þær virðast ekki vera til.