Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Þriðjudaginn 05. febrúar 2002, kl. 19:34:50 (4110)

2002-02-05 19:34:50# 127. lþ. 69.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., Flm. KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 127. lþ.

[19:34]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Hún er orðin fyndin, þráhyggjan í hv. 1. þm. Norðurl. e. Ég bendi honum á að það er ekki rétt hjá honum að allir Austfirðingar séu fylgjandi þeim framkvæmdaáformum sem hér liggja á borðum. Ég vil bara benda honum á að það kemur í ljós í skoðanakönnunum, í þeirri skoðanakönnun sem hefur verið hvað ítarlegust af þeim sem gerðar hafa verið og gerð var af fyrirtækinu PriceWaterhouse Coopers í sl. ágúst, að tæp 20% Austfirðinga eru mótfallin því að farið verði út í þessar aðgerðir. Það fólk er sammála því sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur lagt til, að atvinnuuppbygging á svæðinu fari fram með öðrum og umhverfisvænni hætti en ríkisstjórnin hefur haft döngun í sér til að skoða. Hv. þm. getur lesið um ótal hugmyndir sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur lagt til, nú síðast í þingmáli um sérstakt atvinnuátak á Austurlandi.