Framhald umræðu um skýrslu um byggðamál

Miðvikudaginn 06. febrúar 2002, kl. 13:43:35 (4128)

2002-02-06 13:43:35# 127. lþ. 70.93 fundur 311#B framhald umræðu um skýrslu um byggðamál# (aths. um störf þingsins), Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 127. lþ.

[13:43]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það var ekki ætlun mín með þessari saklausu fyrirspurn um tilhögun starfa hér að raska ró forseta eða valda uppnámi á þingi að öðru leyti. Ég var ósköp einfaldlega að inna eftir því sem mér finnst fullkomlega réttmætt, hvort ekki ætti sem fyrst að halda áfram þeirri umræðu sem hér var hafin fyrir áramót um byggðamál. Ég var líka að rökstyðja, herra forseti, að það væri ærin ástæða til að Alþingi léti þessi mál til sín taka. Ætli mönnum finnist það ekki hið minnsta úti í hinum dreifðu byggðum þar sem menn eiga víða í vök að verjast að þessi mál séu ekki afgangsstærð á dagskrá Alþingis, séu hornreka og víki stanslaust fyrir öðrum hlutum.

Nú hafa þingstörfin verið með þeim hætti undanfarna daga frá því að þing kom saman að það hefur ekki verið neitt sérstakt annríki. Ég leyfði mér þess vegna að vekja athygli á því af því að mig var farið að lengja eftir því að þessari umræðu yrði fram haldið.

Ég ætlaði að nota annað og betra tækifæri til að ræða við hæstv. byggðamálaráðherra um sagnfræðina í þessum efnum en ég er þess albúinn ef hæstv. ráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, vill rifja upp þann tíma sem Framsfl. fór með byggðamál í ráðuneyti Steingríms Hermannssonar frá 1988--1991 eins og hann hefur nú gert aftur um skeið. Það er guðvelkomið. Það er að vísu alveg hárrétt að það voru erfið ár í atvinnulífi, alveg sérstaklega landsbyggðarinnar. Sú ríkisstjórn sem tók við völdum haustið 1988 tók, eins og kunnugt er, við miklu þrotabúi og útflutningsatvinnugreinarnar voru að stöðvast þannig að það bitnaði að sjálfsögðu á landsbyggðinni, ekki síður en öðrum, en það tókst, m.a. með aðgerðum þeirrar stjórnar, að snúa því við og í hönd fóru skárri ár í byggðamálum en allt of fá. Síðan hefur sigið mjög á ógæfuhliðina og sl. 6--8 ár hafa verið með þeim ljótustu sem við höfum nokkurn tíma séð í okkar sögu. Þar ber Framsfl. mikla ábyrgð því hann fór í ríkisstjórn á miðju ári 1995 og situr þar enn, því miður.