Kynning á málstað Íslands í hvalveiðimálum

Miðvikudaginn 06. febrúar 2002, kl. 15:05:56 (4169)

2002-02-06 15:05:56# 127. lþ. 71.3 fundur 324. mál: #A kynning á málstað Íslands í hvalveiðimálum# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., KolH
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 127. lþ.

[15:05]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram um að sannarlega væri fengur að því að fá að heyra meira um árangur af því starfi sem fram hefur farið á vegum sjútvrn. og eytt hefur verið í tugum millj. undanfarin þrjú ár og er greinilegt að ekki á að linna látunum. Það á að halda áfram á sömu braut. Ég hvet hæstv. sjútvrh. til að skila skýrslum um þetta starf og árangur þessara starfa í sali Alþingis. Ég hvet einnig hv. alþingismenn til að hafa í huga að Íslendingar eru að nýta hvali við landið núna með því að gera út á hvalaskoðun. Það hefur verið vaxandi atvinnugrein víða úti á landi og skilar tugum milljóna í þjóðarbúið eftir því sem nýjustu skýrslur herma.

Svo vil ég minna á að viðskiptafulltrúar Íslendinga í t.d. Bandaríkjunum biðja þingmenn sem heimsækja þá á skrifstofur í New York þess lengstra orða að nefna aldrei hvalveiðar því svo gífurlegir hagsmunir séu í húfi, og þeir menn segjast ekki vera neinir sérstakir hvalaverndunarsinnar.