Kynning á málstað Íslands í hvalveiðimálum

Miðvikudaginn 06. febrúar 2002, kl. 15:07:15 (4170)

2002-02-06 15:07:15# 127. lþ. 71.3 fundur 324. mál: #A kynning á málstað Íslands í hvalveiðimálum# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., KPál
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 127. lþ.

[15:07]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég held að öllum sé ljóst að það voru mjög mikil mistök þegar ákveðið var í sölum Alþingis að ganga úr Alþjóðahvalveiðiráðinu. Fyrir vikið hefur okkur gengið mjög illa að komast af stað að nýju. Forsenda þess að hægt verði að selja hvalaafurðir ef veiðar hefjast á ný er einfaldlega sú að við séum í Alþjóðahvalveiðiráðinu og við getum ekki gengið í það öðruvísi en hafa ákveðna fyrirvara fyrir inngöngunni.

Ég held að ekki sé hægt að segja annað en hæstv. ráðherra hafi gert mjög mikið til þess að komast af stað í þessu máli. Þetta tekur eðlilega mjög langan tíma vegna þess hversu illa var að málinu staðið í upphafi, að ganga úr ráðinu sem öllum var í rauninni ljóst að var afdrifarík ákvörðun og ekki kannski skoðuð nægilega vel.