Þingsköp Alþingis

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 14:38:00 (4259)

2002-02-07 14:38:00# 127. lþ. 73.8 fundur 119. mál: #A þingsköp Alþingis# (rannsóknarvald þingnefnda) frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[14:38]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hér hljóðs til að lýsa yfir ánægju minni með þetta frv. Ég hef ekki tekið til máls um þetta mál áður á þeim þingum sem það hefur þó verið flutt og ég hef setið, á 125. og 126. löggjafarþingi. Mér þykir hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hafa fylgt því úr hlaði með afar sannfærandi rökum og sú sem hér stendur, sem hefur ekki langa þingreynslu að baki, hefur þó þá reynslu sem hv. þm. lýsir, að eftirlitshlutverk þingmanna með framkvæmdarvaldinu er skert. Það helgast af ýmsu og m.a. því að nefndir Alþingis hafa tilhneigingu til að starfa samkvæmt forskrift stjórnarmeirihlutans.

Það sem hefur valdið mér vonbrigðum varðandi störf nefnda hér í þinginu er t.d. það að núna skuli vera unnið eftir þeirri reglu að formenn þingnefnda skuli eingöngu koma úr flokkum ríkisstjórnarinnar. Ég hefði í sakleysi mínu talið svo sjálfsagt að hluti af formönnum þingnefnda kæmi úr stjórnarandstöðuflokkum og hefði talið það vera til merkis um það að hér standi þingmenn og þingflokkar saman um það að halda þannig á málum að möguleiki samkomulags sé alltaf til staðar. Mér hefur fundist af þeirri skömmu reynslu sem ég hef, herra forseti, pottur brotinn í þessum efnum, og ég sé ekki betur en að í þessu frv. sem við erum að ræða séu tæki sem ættu að efla möguleika þingmanna til að sinna þessari eftirlitsskyldu sinni.

Það eru líka orð að sönnu sem hv. þm. kom inn á í ræðu sinni að það skiptir verulegu máli að alþingismenn fái tækifæri til að eiga í skoðanaskiptum um störf Alþingis og um það hvernig við getum sinnt eftirlitshlutverki okkar. Það eflir lýðræðið í landinu. Ég tek líka undir orð hv. þm. varðandi lýðræðið. Það skiptir okkur máli að skiptast á skoðunum um lýðræðið og það hvernig við framfylgjum því héðan úr þessum sal.

Eitt af því sem hefur vakið athygli mína og valdið mér ákveðnum áhyggjum í starfi mínu sem þingmaður er það hversu litla möguleika þingmenn hafa á að fylgjast með reglugerðasmíð. Þar hittir þetta frv. algerlega naglann á höfuðið. Ég lýsi því hér yfir, herra forseti, að að mínu mati er aðkomu þingmanna að reglugerðasmíð afar ábótavant. Í risastórum lagabálkum sem þingnefndir hafa lagt sig fram um að vinna og þingmenn hafa sett sig vel inn í --- ég nefni t.d. lagabálk sem við afgreiddum á síðasta þingi frá menntmn., lög um minjavörslu í landinu. Þau lög kalla á fjöldann allan af reglugerðum. Og ég hefði haft fullan hug á, t.d. í því tiltekna máli og gæti eflaust nefnt fleiri mál til sögunnar, að þingnefndin fengi einhvern umsagnarrétt um reglugerð með svona viðamiklu máli, máli sem þingnefnd hefur lagt sig í líma við að vinna vel og skilgreina vel. Ég lýsi því yfir að það er ansi sárt til þess að vita að þingnefnd skuli ekki fá tækifæri til að fylgja sínum málum þá eftir af meira afli en raun ber vitni. Auðvitað vita það allir sem í þessum sal eru staddir að hluti af framfylgni laga eru reglugerðirnar. Og ef þær eru einasta á valdi framkvæmdarvaldsins án nokkurrar aðkomu eða umsagnar frá þingmönnum stjórnarandstöðunnar er auðvitað tilhneiging til og hætta á að ólík sjónarmið eða kannski að pólitískur ágreiningur verði ekki lempaður eða skoðaður málefnalega heldur sniðgenginn.

Í þessu máli er vikið að hlutverki Ríkisendurskoðunar og ég fagna því að í frv. eða í grg. með því sé tekið fram að því sé ekki ætlað að breyta á nokkurn hátt stöðu Ríkisendurskoðunar. Ég lýsi því yfir að mér finnst aðkoma þingmanna að málum í gegnum Ríkisendurskoðun vera farvegur sem virkar og ég hef á mínum stutta ferli sem þingmaður fagnað því og haft góða tilfinningu fyrir því að þingmenn skuli eiga þann aðgang sem þeir þó eiga að Ríkisendurskoðun. Ég lít svo á að þar sé farvegur sem þingmenn hafa notað af visku og alls ekki ótæpilega og tel að þann farveg beri að varðveita.

Ég vil taka undir tvennt sérstaklega sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir nefndi í ræðu sinni áðan. Annað er þessi tilhneiging ríkisstjórnarinnar sem nú situr til að hlutafélagavæða stofnanir í opinberri eigu og ég tek undir að það er hætta samfara því að breyta opinberum stofnunum í hlutafélög. Við þurfum ekki annað en að nefna dæmi um samning forstjóra Símans sem margoft hefur borið á góma í þingsölum. Í hlutafélögum er hægt að fara fram með meiri leynd heldur en í opinberum stofnunum og mér þykir full ástæða til að þingmenn láti nú af alvöru til sín taka í þeim efnum. Frv. af þessu tagi er lóð á þá vogarskál. Hitt varðar upplýsingalögin en þetta sama má segja um þau og ákvæði þeirra sem ráðherrar hafa í auknum mæli haft tilhneigingu til að bera fyrir sig á þann hátt að þingmönnum er ekki hleypt inn í ákveðin mál. Í slíku er að sjálfsögðu ákveðin hætta fólgin sem okkur í þessum sal ber að sporna gegn.

Ég lýsi því þess vegna yfir, herra forseti, að ég tel að hér sé á ferðinni hið öflugasta mál sem ég vona að hv. allshn. taki til umfjöllunar og Alþingi fái þá tækifæri til að segja álit sitt á þessu máli við 2. og 3. umr.