Þingsköp Alþingis

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 14:48:23 (4261)

2002-02-07 14:48:23# 127. lþ. 73.8 fundur 119. mál: #A þingsköp Alþingis# (rannsóknarvald þingnefnda) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[14:48]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Sem einn af flutningsmönnum þessa frv. vil ég byrja á að þakka hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs fyrir þær góðu undirtektir við þetta mál sem komið hafa fram í ræðum þeirra hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur og hv. þm. Ögmundar Jónassonar.

Málið sem flutt er hér að frumkvæði hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, sem hefur beitt sér mjög fyrir því að vald þingsins til þess að veita framkvæmdarvaldinu aðhald verði aukið, gengur í reynd út á tvennt, herra forseti.

Í fyrsta lagi er lagt til að þingnefnd geti að eigin frumkvæði tekið upp og rannsakað önnur mál en þau sem beinlínis er vísað til hennar sem fagnefndar. Þar er sérstaklega tilgreind framkvæmd laga, ýmis mikilvæg mál sem varða almenning en ekki síst meðferð opinberra fjármuna.

Í öðru lagi er lögð til sú nýbreytni að nefndin geti, ef hún telur ríka ástæðu til, efnt til sérstakrar rannsóknar sem fari fram fyrir opnum tjöldum. Herra forseti. Þetta seinna er ákaflega mikilvægt. Eins og við vitum hefur það verið einkenni hins íslenska Alþingis að það er háð í heyranda hljóði. Þess vegna höfum við hér, herra forseti, þessi opnu gallerí sem stundum fyllast af fólki til að fylgjast með umræðum hér, fylgjast með framvindu mála.

En lýðræðið er hugtak sem stöðugt er undirorpið breytingum, skilningur samtíðarinnar á lýðræðinu breytist með framvindu tímans. Eins og mál hafa þróast eru margir þeirrar skoðunar, þeirra á meðal við þingmenn Samfylkingarinnar, að ekki sé nóg að uppfylla skylduna um að heyja þing í heyranda hljóði með því einungis að opna almenningi aðgang að þingfundum. Það verður að ganga lengra. Í vaxandi mæli hafa störf þingsins þróast með þeim hætti að verulegur hluti þeirra, kannski sá athyglisverðasti og fróðlegasti, fer fram að baki luktum dyrum í þingnefndum. Þangað á hinn almenni Íslendingur, almenningur, ekki kost á að koma og fylgjast með störfum þingsins.

Herra forseti. Alþingi var í upphafi háð í heyranda hljóði og allir Íslendingar gátu komið til þings og haft áhrif á gang mála. Allir Íslendingar höfðu áhrif vegna þess að þeir gátu veitt Alþingi aðhald og tekið þátt í því. Ég tel nauðsynlegt að fylgja eftir þeirri framvindu sem hefur orðið á skilningi okkar á lýðræðishugtakinu með því að opna við sérstakar aðstæður nefndir þingsins fyrir almenningi. Fyrst og fremst, herra forseti, held ég að það verði að gerast þegar um er að ræða mál eins og þessi sem tekin yrðu, að þessu frv. samþykktu, til sérstakrar rannsóknar. Það er nauðsynlegt vegna þess að stærsta valdið í samfélaginu er skoðun fólksins og vilji þess. Hann á að geta mótast, m.a. með því að fólkið sjálft eigi þess kost að fylgjast með rannsókn mála af þessu tagi.

Herra forseti. Ég vísa til þess sem hv. flm., Jóhanna Sigurðardóttir sagði, um að þessi tillaga hvíldi á 39. gr. stjórnarskrárinnar. Þar er að finna ákvæði þess efnis að Alþingi geti skipað nefndir til að rannsaka mikilvæg mál. Herra forseti. 60 sinnum hafa þingmenn látið á þetta ákvæði stjórnarskrárinnar reyna. Einu sinni, einungis einu sinni, hefur þingheimur eða starfandi meiri hluti orðið við því að skipa slíka nefnd. Sú nefnd var sett til þess að rannsaka okur. 59 sinnum hefur tillaga um slíkt verið felld. Það finnst mér sýna, herra forseti, að þetta ákvæði stjórnarskrárinnar er ekki virkt.

Ég og flokkur minn erum þeirrar skoðunar að það eigi að auka lýðræðið, efla vald Alþingis og ganga á það vald sem framkvæmdarvaldið hefur tekið til sín, í sumum tilvikum sölsað undir sig, með því að styrkja Alþingi. Ég held þess vegna að hugsanlega þurfi að ganga lengra en við flutningsmenn gerum í þessu frv. Hugsanlega þarf að breyta stjórnarskránni þannig að ótvírætt sé kveðið á um skyldu Alþingis til að hafa virkt eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Um leið og það yrði gert að skyldu Alþingis þýddi það einfaldlega að það yrði að vera kleift að fara þessa leið eða einhverja svipaða til að veita því aðhald. Raunar, herra forseti, er ég þeirrar skoðunar að það sé nauðsynlegt fyrir lýðræðið í þessu flókna samfélagi sem stöðugt er að vinda upp á sig, nauðsynlegt fyrir meiri hlutann hverju sinni að honum sé sýnt virkt aðhald. Það felst m.a. í því að minni hluti nefndar geti krafist þess að slík rannsókn verði sett á laggir fyrir opnum tjöldum. Minni hlutinn hverju sinni á að geta krafist þess gagnvart meiri hlutanum.

Hví segi ég þetta, herra forseti? Þetta orkar að sjálfsögðu tvímælis í fljótu bragði. Hví í ósköpunum ætti minni hlutinn að geta krafist þess að ráðist yrði í slíka rannsókn fyrir opnum tjöldum? Ástæðan er sú, herra forseti, að yfirleitt --- nánast í öllum tilvikum miðað við þær tillögur sem fram hafa komið í fortíðinni --- mun slík rannsókn beinast að gerðum framkvæmdarvaldsins sem styðst við meiri hlutann á þingi hverju sinni. Ef við ætlum að ganga veg lýðræðisins og aðhaldsins á enda er nauðsynlegt að tryggja það með því að minni hlutinn hafi möguleika til að krefjast slíkrar rannsóknar.

Ég vek eftirtekt á því, herra forseti, að með því er ekki verið að taka valdið af meiri hlutanum. Hann mundi áfram stýra slíkri rannsókn. En hann yrði að gera það með málefnalegum hætti. Hann gæti ekki bara skotið þessum málum undir teppið. Það, herra forseti, er það sem gerst hefur þegar þingnefndir, eins og fjárln. Alþingis sem ég hef átt sæti í, hafa tekið slík mál til rannsóknar.

Ég vil sérstaklega nefna tvö mál í þessu sambandi, herra forseti, vegna þess að ég hef tekið þátt í þeim báðum. Í fyrsta lagi umfjöllun um skýrslu Ríkisendurskoðunar vegna frammúrkeyrslu úr fjárlögum við byggingu Þjóðmenningarhússins. Eins og menn muna fór forsrn. 100 milljónir fram úr fjárlögum. Forsrn. braut lög, braut fjárlög. Við sem þekkjum setningu fjárreiðulaganna árið 1997 erum auðvitað klár á því að þetta átti að gera með allt öðrum hætti. Hvað olli því að menn fóru svona fram úr sjálfum sér? Það var ekki einbeittur vilji hæstv. forsrh. til þess að brjóta fjárlög, það liggur alveg ljóst fyrir.

Samkvæmt þeirri skýrslu sem fyrir liggur af hálfu Ríkisendurskoðunar er ljóst að potturinn brotnaði á mörgum stöðum. Það voru ýmsir eftirlitsaðilar, bæði innan stjórnsýslunnar en líka sem sérstaklega höfðu verið keyptir til eftirlits, sem brugðust.

Getum við lært af þessu, herra forseti? Nei, við getum ekki lært af þessu. Hvers vegna? Vegna þess að málið fékkst hvergi skoðað af hálfu þingsins.

Þingið sjálft er undir sömu sök. Herra forseti. Ég vísa til þess að þingið fór sjálft fram úr fjárlögum og á svig, a.m.k. að því er ég tel, við fjárreiðulögin varðandi kostnað við endurbætur á skrifstofuhúsnæði hér handan Austurvallar. Að frumkvæði þingmanna stjórnarandstöðunnar, mín og hv. þm. Jóns Bjarnasonar og þingmanna Samfylkingarinnar, var málið tekið upp í fjárln. Hvað kom út úr því? Ekki neitt. Þar var auðvitað alveg ljóst, herra forseti, að kastljósið gat beinst að ýmsum sem þinginu tengdust, til að mynda hæstv. forseta Alþingis. Það lá ljóst fyrir að hæstv. forseti Alþingis, Halldór Blöndal, hafði sjálfur tekið ákvarðanir sem orkuðu tvímælis. Ég er ekki að varpa neinni sök á hann persónulega í því efni. Ég segi það hins vegar að þingið þarf auðvitað að geta lært af þessu. Við þurfum að vera klár á því sem fór úrskeiðis til að koma í veg fyrir að það endurtaki sig.

Herra forseti. Úr þessari rannsókn varð auðvitað ekkert í fjárln. Mér er ekki kunnugt um að henni hafi nokkru sinni verið lokið. Með öðrum orðum: Þingið sjálft ákveður að fara í rannsókn vegna þess að það eru uppi gagnrýnisraddir innan þings og utan. Hvað gerist? Þingið sjálft sópar rannsókninni undir teppið. Herra forseti. Þetta eru ekki nógu góð vinnubrögð.

Því segi ég að þessi reynsla sannfærir mig um að í fyrsta lagi er nauðsynlegt að hafa það tvímælalaust í lögum að mál sem varða meðferð opinberra fjármuna sérstaklega og framkvæmd laga séu tekin upp í nefndum þingsins ef þau eru þess eðlis. Í öðru lagi verður það að gerast fyrir opnum tjöldum. Í þriðja lagi ítreka ég þá skoðun mína, sem að vísu kemur ekki fram í þessu frv., að í framtíðinni kann að vera nauðsynlegt að við veitum minni hlutanum hverju sinni heimild til að gera þetta. Ég er t.d. viss um að hv. þingmenn Sjálfstfl. munu grípa þetta tækifæri fegins hendi, að slíkri tillögu samþykktri, þegar þeir verða í minni hluta á næsta kjörtímabili. Þeir mundu væntanlega reyna að svíða hárin á feldi okkar sem þá munum fara með landsstjórnina. Ég er viss um það og sé á svip hv. þm. Guðjóns Guðmundssonar að hann hugsar sér gott til glóðarinnar í því efni.

Herra forseti. Þetta frv. sem hér liggur fyrir frá þingmönnum Samfylkingarinnar er hluti af þeirri umræðu sem farið hefur fram innan Samfylkingarinnar um þróun lýðræðis og hvernig megi bæta lýðræðið. Við erum þeirrar skoðunar að eins og tímarnir hafa breyst þá þurfi í vaxandi mæli að leita nýrra leiða til að vilji fólksins nái fram að ganga.

Eitt af því sem þarf að gera er að skerpa mörkin á milli stjórnþáttanna, milli Alþingis og framkvæmdarvaldsins og líka milli dómstóla og fyrrnefndu þáttanna tveggja. Við höfum þess vegna lagt fram frv. sem lýtur að skipan hæstaréttardómara, þar sem lögð er til af hálfu þingmanna Samfylkingarinnar sérstök aðferð sem hefur það yfir vafa að flokkapólitík hafi nokkur áhrif þar á. Það er algjörlega nauðsynlegt, herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu með því að vísa til atburða síðasta árs sem undirstrika það skýrar en allt annað.

[15:00]

Sömuleiðis er ég þeirrar skoðunar, herra forseti, að eitt skref sem þyrfti að stíga til þess að skýra mörkin milli framkvæmdarvaldasins og löggjafans, til að gera það alveg skýrt að þar eru skörp skil á milli, sé að ráðherrar, sem fara með framkvæmdarvaldið sem Alþingi framselur, ættu tímabundið að segja af sér þingmennsku og gera þessi skil algjörlega ljós.

Herra forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir nefndi sérstaklega eitt atriði sem hefur verið mér þyrnir í augum frá því að ég hóf hér störf, þ.e. hvernig embættismenn, hinir ágætustu menn sem allir vilja láta gott af sér leiða, eru í vaxandi mæli komnir með framkvæmdarvaldið í sínar hendur. Embættismenn eru ekki kjörnir fulltrúar. Við, löggjafinn, framseljum vald okkar í ríkum mæli til framkvæmdarvaldsins, til ráðherranna. Í vaxandi mæli er það þannig. Ég tala hér sem gamall ráðherra sem veit hvernig þetta gerist. Í vaxandi mæli er það þannig að embættismennirnir búa til frumvörpin og leggja rammann að löggjöfinni. Það er út af fyrir sig í ágætu lagi að þeir geri það. Þeir hafa sérfræðikunnáttuna til þess. Síðan kemur málið til kasta þingsins og þá er það auðvitað þingið sem á að fara gagnrýnum augum yfir frumvörpin sem frá framkvæmdarvaldinu koma, frá þessum ágætu embættismönnum. En þá gerist það aftur og aftur að þeir sem þingnefndirnar kalla til eru þessir sömu embættismenn.

Það vakti ekki mikla gleði, minnist ég, þegar ég var formaður heilbr.- og trn. og hafnaði því í krafti þeirrar tignarstöðu (Gripið fram í: Þú varst góður.) að fulltrúar heilbr.- og trmrn. sætu inni á fundum til að fjalla um mál á meðan fulltrúar hagsmunasamtaka, fulltrúar utan úr bæ sem kallaðir voru til ráðslags, komu fyrir nefndina. Herra forseti. Ég tel að með þeim hætti, eins og tíðkast í mörgum nefndum, séu í reynd sömu mennirnir og semja frumvörpin að fjalla um þau hinum megin við borðið. Með öðrum orðum: Við erum ekki bara að framselja vald okkar út fyrir þingið heldur erum við líka að láta það frá okkur innan þingsins. Þetta, herra forseti, er eitt af því sem við þurfum að vinda bráðan bug að því að bæta.

Í stuttu máli: Hér er lagt fram frv. sem brýtur í blað. Það hefur að vísu verið flutt mörgum sinnum en ég held að það sé þarfara nú en nokkru sinni fyrr. Ég hef í ræðu minni nefnt tvö dæmi, þar af eitt sem snertir þingið með sárum hætti og gerir það að verkum að þetta frv. kallar beinlínis á að þingið samþykki það nú á vorþinginu.