Þingsköp Alþingis

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 15:07:25 (4264)

2002-02-07 15:07:25# 127. lþ. 73.8 fundur 119. mál: #A þingsköp Alþingis# (rannsóknarvald þingnefnda) frv., GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[15:07]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Það verða létt spor út úr þinghúsinu í dag eftir þessa glæsilegu spádóma hv. þm. sem við vonum að sjálfsögðu báðir að rætist.

En varðandi það að hv. þm. hafi aðra skoðun en ég og við sem höfum fjallað um þetta mál fyrir hönd forsn. þingsins þá finnst mér það svo sem ekki snúast um að hafa aðra skoðun. Mér finnst að þetta mál hafi verið rannsakað alveg í botn af Ríkisendurskoðun, sem er auðvitað sú stofnun sem við komum okkur upp til þess að taka á slíkum málum og finna út hinn eina stóra sannleika. Ríkisendurskoðun skilaði afskaplega vandaðri skýrslu um þetta mál, um framgang þess og hvað fór úrskeiðis. Af því eiga menn auðvitað að læra. Þarna fór margt úrskeiðis og það er sjálfsagt ýmsum að kenna.

Hv. þm. segir að Alþingi hafi brotið lög með því að fara fram úr áætlunum en það er svolítið erfitt við það að eiga þegar Alþingi er gert að fela öðrum framkvæmd verksins, eins og núna er í Skálanum. Alþingi fékk ekki sjálft að sjá um þá byggingu, sem ég tel að hefði verið besti kosturinn, að Alþingi réði sér einfaldlega byggingarstjóra og sæi um þetta sjálft. Alþingi hafði ekki heimild til þess. Alþingi verður að leita til Framkvæmdasýslu ríkisins og ef eitthvað fer úrskeiðis þar þá er, eins og hv. þm. segir, Alþingi að brjóta lög og þá er það Alþingi að kenna. En er það sanngjörn gagnrýni? Ég segi nei.

Ég ítreka að mér finnst viðbrögð hæstv. forseta Alþingis, Halldórs Blöndals, hafa verið hárétt í þessum hremmingum öllum. Það hvernig staðið er að framkvæmdum núna sýnir að menn lærðu af því sem úrskeiðis fór í fyrra. Menn standa öðruvísi að verki núna og ég er sannfærður, eins og ég sagði í fyrra andsvari mínu, um að forseti Alþingis mun geta borið höfuðið hátt þegar Skálinn verður gerður upp.