Þjóðfáni Íslendinga í þingsal Alþingis

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 15:59:56 (4288)

2002-02-07 15:59:56# 127. lþ. 73.9 fundur 120. mál: #A þjóðfáni Íslendinga í þingsal Alþingis# þál., KÓ
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 127. lþ.

[15:59]

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Ég fagna fram kominni þáltill. og mun ég styðja hana. Ég tel að með því að þjóðfáni okkar verði í þingsal verði umgjörð um ræðustólinn hátíðlegri og mundi það verða til að auka virðingu þingsins.

Síðari ár höfum við Íslendingar verið að tengjast í auknum mæli alþjóðaviðskiptum, bæði með vöru og þjónustu. Í því sambandi er jafnframt afar mikilvægt að hafa íslenska fánann ávallt með í för.

Mig langar að vitna í ræðu hv. flm. þáltill., Guðmundar Hallvarðssonar. Hann segir, með leyfi forseta:

,,Danir hafa t.d. tekið mjög upp þann sið að nota fánann til þess að auðkenna útflutningsvöru sína.``

Þessu hef ég einmitt veitt athygli á ferðum mínum erlendis, að Danir hafa notað fána sinn hvarvetna þar sem þeir flytja út vörur, hvort sem um er að ræða matvöru, tæknibúnað eða tæki, að ég tali ekki um þegar þeir koma á alþjóðlegan vettvang í íþróttastarfi. Þetta hefur orðið til þess að danski fáninn er þekktur víða um heim og vörur þeirra. Ég tel að með því að við tökum þann sið upp að hafa þjóðfánann í þingsal kennum við okkar ágætu þjóð að meta fánann okkar og kennum þeim sem hafa með útflutning og sölu á vörum og þjónustu að gera að fáninn þarf að vera með í för, ekki síður hér en í Danmörku. Ég vona að þetta verði góð áminning einmitt til þessara aðila þegar þeir sjá fánann okkar í sjónvarpi við hliðina á þessum ræðustól.