2002-02-11 16:25:06# 127. lþ. 74.15 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), KVM
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[16:25]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Nú er fram haldið umræðu um skýrslu Byggðastofnunar fyrir árið 2000. Ber nú að sama brunni varðandi þetta mál og málið sem var til umræðu áðan. Það var önnur ársskýrsla og líka fyrir árið 2000. Nú erum við að fjalla um skýrslu Byggðastofnunar fyrir árið 2000 á sama tíma og við heyrum í fréttum að það eigi að fara að leggja fram tillögur um aðgerðir í byggðamálum fyrir árin 2002--2005. Það skýtur skökku við, herra forseti, að þetta starfslag skuli viðhaft hér, þ.e. að ekki skuli vera búið að ræða þessa skýrslu fyrr.

Í þessari skýrslu fyrir árið 2000 kemur fram að stofnunin hefði þurft að fá meira fjármagn til að geta sinnt lánsumsóknum frá landsbyggðinni. Í þessari skýrslu er einnig látið að því liggja að æ meiri krafa sé gerð til þessarar stofnunar og æ meiri þrýstingur á hana vegna þess að bankarnir eru ekki fúsir til þess að lána fé í starfsemi úti á landi vegna þess að þeir óttast að tryggingar séu ekki nægjanlega góðar. Þetta sýnir glöggt að staðan er ekki nógu góð hvað varðar álit á mörgum fyrirtækjum á landsbyggðinni sem sýna mörg hver góðan árangur.

Hér segir að eitt aðalverkefni Byggðastofnunar eigi að markast af gildandi byggðaáætlun á hverjum tíma. Byggðastofnun leggur fram í þessari ársskýrslu nokkurs konar mat á því hvernig ályktun Alþingis um stefnu í byggðamálum hefur gengið eftir, þ.e. sú byggðaáætlun sem var í gildi frá árinu 1999--2001 og er útrunnin.

Háleit eru markmiðin í ályktuninni fyrir árin 1999--2001. Höfuðmarkmiðið er að treysta búsetu á landsbyggðinni og þar stóð að stefnt væri að því að fólksfjölgun ætti að vera þar ekki undir landsmeðaltali og nema 10% til ársins 2010. Ljóst er að þetta hefur ekki getað gengið eftir því frekar hefur fækkað á landsbyggðinni en hitt.

Talað er um atvinnuþróunarfélög sem Byggðastofnun hefur gert samninga við og að þau eigi að verða til þess að styrkja landsbyggðina. Í þessu sambandi langar mig að vita, herra forseti, hvort einhver sé til svara hér í sambandi við þessa skýrslu. (Gripið fram í: Nei.)

(Forseti (GuðjG): Hæstv. ráðherra er í húsinu. Ef hv. þm. óskar eftir skal ég senda henni boð um að hennar sé óskað.)

Það er ágætt. Það koma fram spurningar um skýrsluna.

Í byggðaáætlun frá árinu 1999--2001 segir, eins og ég sagði áðan, að treysta eigi búsetuna í landinu og að séð verði til þess að fólksfjölgun verði um 10%.

[16:30]

Þá má spyrja: Hvernig hefur þetta gengið eftir? Hvernig hefur gengið eftir með starfsemi atvinnuþróunarfélaganna og hvernig er útlitið í þeim efnum? Hvað sjá starfsmenn atvinnuþróunarfélaganna á landsbyggðinni fyrir sér? Kannski er útlitið mjög gott og kannski er það ekki gott. Það væri ágætt að það yrði upplýst hér, sérstaklega af því að nú er árið 2001 liðið og síðasta ályktun Alþingis í byggðamálum náði til þess árs.

Einnig er rætt um lánastarfsemi Byggðastofnunar, að hún eigi að vera rekin á arðsemisgrundvelli. Auðvitað er æskilegast, herra forseti, að öll lánastarfsemi sé rekin þannig að ekki sé tap á henni. En þegar við erum að tala um landsbyggðina í dag snýst málið um svæði sem eiga undir högg að sækja. Það liggur í hlutarins eðli að þegar menn reyna að stofna til einhverrar starfsemi þá hlýtur að vera tekið tillit til þess af hinu opinbera, eins og við sjáum hvarvetna í nágrannalöndum okkar og víðar þar sem eru lagðar gífurlega fjárhæðir til uppbyggingar í byggðamálum.

Talað hefur verið um koma upp byggðasjóði sem hafi það sérstaklega að markmiði að auka hagkvæmni í rekstri fyrirtækja á landsbyggðinni. Þessi byggðasjóður á að vera sjóður Byggðastofnunar. Ég spyr: Hvernig er útlitið hjá Byggðastofnun með fjármagn og aðstöðu til að lána peninga til nýframkvæmda úti á landi?

Ég vék áðan að atvinnuþróunarfélögunum og eignarhaldsfélögunum. Ég spurði um þessi félög --- ég sé að hæstv. iðnrh. er komin í þingsalinn: Hvert er útlitið með þau félög og hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér framtíð þeirra? Í þessari ársskýrslu Byggðastofnunar er fjallað um eignarhaldsfélögin. Ríkisstjórnin samþykkti í byggðaáætlun fyrir árin 1999--2001 að leggja 900 millj. kr. til stofnunar eignarhaldsfélaga sem áttu að vera landsvæðabundin. Hér vakna aftur spurningar: Hvernig hefur þetta gengið eftir? Hugmyndin var, herra forseti, að að þessu kæmu sveitarfélög og aðilar í atvinnulífinu með jafnhátt framlag á móti. Á þessum tíma ættum við, samkvæmt áætlun ríkisstjórnarinnar í byggðamálum fyrir árin 1999--2001, að hafa séð uppbyggingu á þessum meiði fyrir 1.800 millj. kr., þ.e. tæpa tvo milljarða. Hefur þetta gengið eftir? Hver er staða eignarhaldsfélaganna á landinu?

Það kemur að nokkru leyti í ljós með framkvæmdina á þessu að sum félögin eru vart tekin til starfa. Hvað á að gera í sambandi við það í framtíðinni?

Í þessari ársskýrslu er rætt um öruggar samgöngur, hvernig samgönguþættinum hefði verið sinnt í samræmi við þessa ályktun í byggðamálunum. Á þessu ári er talað um niðurskurð um 1,4 milljarða í vegamálum. Ekki er það nú gæfulegt. Ef það voru 700 millj. á síðasta ári þá er vitnisburðurinn heldur ekki góður um þann tíma. Byggðaáætlunin virðist því ekki hafa gengið upp.

Það má bæta við einum lið enn. Það átti að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni. Hefur það gengið eftir? Ekki verður það nú séð.

Allt ber þetta að sama brunni, herra forseti. Fleiri atriðum mætti víkja að þar sem talað er um menntun og menningu sem átti að stórauka á landsbyggðinni. Um leið koma okkur í hug menningarhúsin frægu sem átti að byggja og gera byggðirnar fýsilegri til búsetu. Hver er staða mála í sambandi við það?

Í raun má segja að sú till. til þál. sem verður lögð fram um stefnu í byggðamálum fyrir árin 2002--2005 sé viðurkenning á því að þær tillögur sem lagðar voru fram fyrir árin 1999--2001 hafi alls ekki gengið eftir. Þar er talað um, eins og segir í fréttatilkynningu sem ég fékk í hendur frá iðn.- og viðskrn., að draga eigi úr mismun á lífskjörum fólks milli byggðarlaga. Þar er fjallað um að aðstoða þurfi byggðarlög á landsbyggðinni við að laga sig að örri samfélagsþróun. Þar er og talað um --- sem er reyndar nýtt --- að byggja upp sterka byggðakjarna. Þar er talað um að efla menningu og skapa fjölbreytta kosti fyrir íbúa landsbyggðarinnar. Flest er þetta í gömlu áætluninni.

Að er lokum rúsínan í pylsuendanum, með leyfi forseta:

,,Að stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi og jöfnun starfsskilyrða.``

Allt er þetta í raun og veru endurtekning á hinni gömlu byggðaáætlun. Reyndar vekur það ugg hjá mörgum þegar talað er um að byggja upp sterka byggðakjarna. Mér dettur í hug að spyrja: Hvernig sjá menn fyrir sér byggð t.d. á suðurfjörðum Vestfjarða og slíkum svæðum sem eru afmörkuð byggðasvæði? Eða hvað með Húnavatnssýslu? Hvað eru menn að hugsa í þeim efnum? Ekki hefur nú verið beysið ástandið. Það þarf að styrkja þessi svæði og efla líka nema menn ætli sér hreinlega bara að láta þau leggjast af. Þá væri nær að koma með þær hugmyndir sem einu sinni voru uppi á borðinu að greiða fólkinu fyrir að flytja burt af stöðunum, segja hlutina bara eins og þeir eru: Við skulum greiða ykkur fyrir að flytja í burtu.

Þessi umræða kom upp áður en jarðgöngin voru komin fyrir vestan. Þá komu jafnvel ábyrgir stjórnmálamenn með þær hugmyndir að greiða fólki sem bjó í þorpunum þar peninga í staðinn fyrir að tryggja almennilegar samgöngur þangað.

Það er nauðsynlegt að efla menntun á landsbyggðinni. Það er eitt af því sem talað er um í þessari nýju byggða\-áætlun sem við hljótum að nefna hér, herra forseti, þegar við ræðum um þá gömlu sem runnin er úr gildi. Nú er í raun og veru engin byggðaáætlun í gildi á vegum ríkisstjórnarinnar því að sú síðasta náði til ársins 2001 og nú er árið 2002 hafið. Í millitíðinni hefur ekkert gerst. Ég held að það þurfi að fara að drífa í þessum málum og tala um þau á þann hátt að eitthvað komist í verk.

Það er líka forvitnilegt, og væri gaman að leggja fram fyrirspurn um það, hversu miklar fjárhæðir allar skýrslurnar sem gerðar hafa verið hafa kostað, og öll bréfin --- þau eru nú orðin mörg --- sem búið er að skrifa um byggðamál og hvað ætti að gera. Hver er afraksturinn þegar við horfum yfir landsbyggðina, herra forseti? Þar er ekki beysið ástand enda eru jafnvel þeir sem töluðu hart á móti byggðakvóta á sínum tíma farnir að ræða í alvöru um að það þurfi að auka byggðakvótann. Ég held að það þurfi að taka undir þá umræðu.