2002-02-11 17:21:30# 127. lþ. 74.15 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[17:21]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála því, ég held það sé miklu merkilegra og gagnlegra að reyna að átta sig á því hvers vegna byggðaþróunin snerist við á áttunda áratugnum heldur en nákvæmlega hverjir sátu í ríkisstjórn. En ég held að efnislega liggi það alveg fyrir og það velkist enginn í vafa um það t.d. sem þekkir til á landsbyggðinni og bjó þar eða var að alast þar upp á þessum árum af hverju það var. Það gjörbreytti um andrúmsloft með þeim stóru ákvörðunum sem teknar voru: útfærsla landhelginnar, skuttogarakaupin, uppbygging frystiiðnaðarins, uppbygging skólakerfisins, uppbygging heilsugæslustöðvanna og stórauknar framkvæmdir í samgöngumálum. Allt þetta kom til sögunnar í upphafi áttunda áratugarins og upp á þessu geta menn flett.

Og það var eins og við manninn mælt að það voraði í andrúmsloftinu, menn öðluðust tiltrú á framtíð þessara svæða, húsbyggingar ruku í gang á vegum einkaaðila og mörg sjávarplássin og byggðarlögin hringinn í kringum landið eiga núna í raun og veru tilvist sína að þakka m.a. og ekki síst því íbúðarhúsnæði sem bættist við á þeim tíma. Og ef keyrt er um Vestfirðina, Norðausturland, Austfirði, Miðnorðurland, þá sést hvað ótrúlega hátt hlutfall húsnæðisins er akkúrat frá þessum árum, og er á milli 20 og 30 ára gamalt í dag.

Hvers vegna gerðist þetta? Skoðum það og þá held ég að við séum kannski að einhverju leyti nær því að vera með lykilinn í höndunum sem þarf að hafa og snúa til þess að gera þetta aftur. Það sem þarf að gera er að koma með svo kraftmiklar aðgerðir og svo sterkar yfirlýsingar um að menn ætli ekki að sætta sig við það að byggðin á Íslandi dragist saman í einn eða þó að það væru tveir eða þrír blettir --- og þar fyrir utan verði eyðimörk --- að fólk geti treyst því að það hafi bakstuðning, pólitískan bakstuðning allra flokka sem hér eru, ekki bara þeirra sem tilfallandi eru í ríkisstjórn á hverjum tíma til að taka áhættuna, veðja á framtíð byggðanna, binda þar fjárfestingar sínar í formi húsnæðis o.s.frv. Öðruvísi verður þetta ekki gert.