2002-02-11 17:50:24# 127. lþ. 74.15 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 127. lþ.

[17:50]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Í þessari umræðu um byggðamál hefur ýmislegt borið á góma og mig langar til að bæta við hana fáeinum orðum. Hún á það sammerkt með öðrum umræðum um byggðamál yfirleitt að þar eru menn sem sjálfir búa yfirleitt annars staðar en á landsbyggðinni að tala um að það væri æskilegt að aðrir byggju úti á landi. Ég er svo sem einn af þeim. Ég held að stundum sé þessi umræða dálítið skrýtin og ankannaleg og sérstaklega þegar menn tala um starfsemi og verkefni sem reynslan hefur kennt okkur að hefur miklu betri aðstæður til að dafna í þéttbýlinu. Ég held að því fyrr sem menn horfist í augu við að á landsbyggðinni eiga menn að snúa sér fyrst og fremst að verkefnum sem eru tengd gæðum landsbyggðarinnar og þeim aðstæðum sem þar eru, það sem landsbyggðin hefur fram yfir þéttbýlið, muni menn ná meiri árangri. Því miður hefur mönnum orðið afar alvarlega á hvað þetta varðar á undanförnum árum þar sem undirstaða fjölmargra byggðarlaga hefur verið brotin í raun og veru með því að eignarhaldið á réttinum til að stunda sjó hefur verið flutt til einnar atvinnustéttar í landinu og hún hefur selt það og keypt að sinni vild án þess að aðrar atvinnustéttir eða þeir sem búa í byggðarlögunum hafi nokkuð um það að segja. Þetta tel ég vera stærstu ástæðuna fyrir vandanum í smærri sjávarútvegsbyggðunum allt í kringum landið.

Mig langar í upphafi að nefna eitt sem mér finnst dálítið undarlegt. Ég var að lesa svolítið í þessari skýrslu sem var til umræðu fyrr í dag eða réttara sagt till. til þál. um stefnu í byggðamálum sem er væntanleg til umræðu og mig langar til að fara fram á það að hæstv. ráðherra byggðamála útskýri fyrir mér og hv. þm. sem hér hlusta ákveðinn mismun sem mér finnst koma fram í þessari tillögu. Mér finnst ýmislegt stangast á í henni. Í fréttatilkynningu hæstv. ráðherra stendur í 1. tölulið á eftir áherslupunktunum: Traust og fjölbreytt atvinnulíf. Og undir þeim lið segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Mikilvægt er að byggðarlögum og fyrirtækjum á landsbyggðinni sé sköpuð aðstaða til að nýta atvinnukosti sína sem best, að starfsskilyrði fyrirtækja séu sem jöfnust`` o.s.frv. --- Síðan segir neðar í þessari klásúlu: ,,Þá er nauðsynlegt að stefna stjórnvalda í atvinnugreinum sem eru þýðingarmiklar á landsbyggðinni, svo sem landbúnaði og sjávarútvegi, dragi ekki úr nýliðun, frumkvæði og fjárfestingum í fámennum byggðarlögum, þar sem fárra annarra atvinnukosta er völ.``

Þetta er mjög skýrt. Þarna segir alveg gjörsamlega umbúðalaust að stefna stjórnvalda megi ekki valda þessum skaða sem svo sannarlega hefur verið uppi í smærri byggðarlögunum, í öllum smærri sjávarútvegsbyggðum á undanförnum árum. Þar hefur stefna stjórnvalda komið afar hart niður vegna þess að menn hafa ekki getað fjárfest í undirstöðuatvinnugreininni, sjávarútvegi, af því að það hefur verið gjörsamlega glórulaust að stofna ný atvinnufyrirtæki í útgerð. Verðið á veiðiheimildum er svo hátt. Þetta stendur þarna.

Ef maður fer síðan aftar í þetta plagg sem lesa mátti á netinu hjá hæstv. ráðherra og flettir upp á þar sem stendur ,,Sjávarútvegur`` má lesa eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

,,Huga þarf að stöðu nokkurra fámennra byggðarlaga sem eru háð útgerð smábáta og viðkvæm eru fyrir áhrifum af flutningi aflamarks milli byggðarlaga.`` --- Af flutningi aflamarks milli byggðarlaga, ekki aflahlutdeilda, ekki réttarins til að stunda sjó, heldur flutningi aflamarks milli byggðarlaga. --- ,,Við endurskoðun á stjórnkerfi fiskveiða er mikilvægt að tryggja þessum byggðarlögum áfram aðgang að aflamarki sem hefur verið til ráðstöfunar fyrir staðbundna útgerð og fiskvinnslu. Slíkt aflamark á að vera tímabundið, óframseljanlegt og endurnýjun þess þarf að tengjast frammistöðu. Auk þess er mikilvægt að reglur um takmarkanir á stærð smábáta verði rýmkaðar`` o.s.frv.

Þarna kveður við svolítið annan tón en þann sem ég las á undan þar sem talað var um almenna möguleika manna í þessum byggðarlögum til að hasla sér völl í atvinnugreininni. Hér er aftur talað um að það eigi að tryggja mönnum eitthvert lítilræði til leigu og ef þeir standa sig vel fá þeir kannski aftur einhvern byggðakvóta. Ég bið hæstv. ráðherra að útskýra hvað sé eiginlega verið að fara með þessu. Úr því að svo nákvæmlega er að orði komist held ég að hæstv. ráðherra hljóti að geta útskýrt fyrir okkur hvað þarna er á ferðinni.

Ég ætla annars ekki að ræða mjög mikið um þessa tillögu. Við fáum tækifæri til að gera það síðar og ég ætla ekki að mæla á móti því sem virðist vera aðaltrompið í henni, að Akureyrarsvæðið verði styrkt. Ég held því hins vegar fram að þó að okkur tækist að búa til aðra höfuðborg fyrir norðan land mundi það ekki bjarga öðrum byggðarlögum. Ef það verður bara til þess að fleiri búa á því svæði sem annars væru hér á höfuðborgarsvæðinu held ég að við höfum ekki náð þeim árangri sem menn vilja ná.

Hvar er svo ákjósanlegast að fólki búi? Ég tel að þeir sem kjósa að starfa í viðkomandi atvinnugreinum eigi fyrst og fremst að ráða því sjálfir og að ákjósanlegast sé að menn búi þar sem styst er til þeirra fyrirtækja sem þeir vinna hjá, þar sem styst er til markaðarins sem þeir eru að vinna fyrir, þar sem menn geta með hagkvæmum hætti rekið fyrirtæki sín og starfsemi. Það er það sem fólkið í landinu er að gera þegar það velur sér búsetu. Stjórnvöld eiga fyrst og fremst að hafa áhrif á þessa hluti með því að sjá til þess að hér ríki ekki óréttlæti og ójafnvægi eins og hefur í raun og veru gerst á undanförnum árum og ég var að lýsa í sambandi við undirstöðuatvinnuveg okkar. Þá þarf hið opinbera auðvitað að hlutast til um að fólk hafi sambærilega möguleika á að fá opinbera þjónustu. Ég fagna því sem stendur í þessari þáltill. --- sem ekki má ræða en maður ræðir samt --- þar sem nefnt er að til greina komi að taka á stærð sveitarfélaganna, jafnvel með lagasetningu. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er þá ekki ljóst að það sé samstaða innan ríkisstjórnarinnar um að vinna tillögur af því tagi?

[18:00]

Þá kem ég kannski að því sem mig langar fyrst og fremst til að leggja inn í umræðuna. Ég held því nefnilega fram að ef menn snúa sér að þessu með þeim hætti að endurskipuleggja sveitarfélögin í landinu upp á nýtt og gera þau öll fær um að taka við þeim verkefnum sem þau eiga að hafa til þess að geta veitt fulla þjónustu, verið með framhaldsskóla og séð sínu fólki fyrir öllum þörfum, heilsugæslu og öðru sem til þarf, þá muni sveitarfélög verða sterkar atvinnueiningar og þannig held ég að hægt sé að nálgast þetta verkefni miklu betur en verið hefur fram að þessu. Ég held að það sé nokkuð ljóst, bara af því að sjá þróun síðustu ára, að byggðarlögunum sem hafa náð því að vera eitthvað í kringum kannski 4.000--5.000 manns hefur tekist að halda í horfinu eða stækka. Það má kannski velta því fyrir sér hvað það er sem ræður þessu en ég held að það sé fyrst og fremst sameiginlegt afl þeirra sem búa í byggðarlaginu sem veldur því að stærri byggðarlögin halda velli.

Bændum heldur áfram að fækka. Tveir bændur á viku leggja af búskap í landinu núna og það kemur ofan á þróun síðustu ára. Hér ræða menn lítið um þetta. Mér finnst að hér á hv. Alþingi séu menn farnir að horfast í augu við að þeir muni ekki tala upp landbúnað á Íslandi, menn verði að horfast í augu við að einungis þeir sem vinna í þeirri atvinnugrein geti bjargað henni með nýjum framleiðslugreinum, ef það er þá hægt. Stjórnvöld þurfa auðvitað að veita þeim aðilum þau tækifæri sem möguleg eru. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst hafa verið nægur vilji á hv. Alþingi til þess að ganga til móts við landbúnaðinn. Við höfum hins vegar verið að uppskera afleiðingar stefnu undanfarinna ára þar sem stjórnvöld báru fyrst og fremst ábyrgð á, þar sem menn önuðu út í framleiðslu sem var á skjön við alla skynsemi og það hefur verið sársaukafullt að ganga þá götu til baka.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór yfir það áðan með stjörnur í augunum hvernig vinstri stjórnin 1972 eða frá 1970 hefði spýtt í lófana og komið byggðarlögunum í landinu til að blómstra. Ég verð því miður að segja að ég tel að sú þróun sem þá fór í gang á Íslandi, þó að hún hafi haft margt jákvætt í för með sér, sé að hluta til skýringin á óförum okkar. Það sem gerðist var að verkalýðsfélögin og stjórnvöld og þeir sem stjórnuðu sveitarfélögunum urðu sammála um að það sem ætti að bjarga byggðarlögunum í landinu væri að breyta útgerðinni úr vertíðarskipum yfir í togskip. Keypt voru togskip á hvern einasta fjörð allt í kringum landið. Þau togskip fóru að veiða fisk með miklu meiri tilkostnaði en áður, með miklu meiri olíueyðslu en áður. Einmitt í framhaldi af því fara svörtu skýrslurnar um auðlindina að koma hér og tillögurnar um að skera niður. Þegar afleiðingarnar af þessu fóru síðan að skella yfir byggðarlögin og kvótinn var settur á þá var hann settur á þessi skip og þau eru flutt í burtu og þar með allar aflaheimildir byggðarlaganna sem um er að ræða. Þannig varð þessi togaravæðing sem má kalla svo bókstaflega að hefndargjöf fyrir mörg byggðarlög í kringum landið. Auðvitað er ýmislegt sem við höfum lært af þessu en ég tel að það hafi þurft að horfa á þessi mál í samhengi við þær ákvarðanir sem menn hafa verið að taka um nýtingu á auðlindinni eða stjórn á henni sem kom í framhaldi af þessum atburðum öllum saman.

Hæstv. forseti. Ég hef því miður lokið tíma mínum.