Samkeppnisstaða íslensks atvinnulífs

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002, kl. 14:43:28 (4441)

2002-02-12 14:43:28# 127. lþ. 75.5 fundur 43. mál: #A samkeppnisstaða íslensks atvinnulífs# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[14:43]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum hér till. til þál. um bætta samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs. Þar sem það er mér mjög hugleikið að íslenskt atvinnulíf hafi góða samkeppnisstöðu þá gladdist ég mjög yfir þessari tillögu þar til ég las hana til enda.

Það er svo sem allt í lagi að láta kanna möguleika á stofnun uppbyggingasjóða í samræmi við það sem er hjá Evrópusambandinu og í Noregi. En ég tel að hvorki Evrópusambandið né Noregur séu þau fyrirheitnu lönd sem við eigum að sækja fyrirmyndir til. Þar er viðvarandi 10% atvinnuleysi. Svo hefur verið í áratugi og þykir allt að því náttúrulögmál. Ég tel að það sé mikill harmleikur fyrir íbúa þessara landa og held að við ættum ekki að sækjast eftir fyrirmyndum þaðan til að bæta samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs.

Herra forseti. Menn geta bætt samkeppnisstöðu lands með almennum og sértækum aðgerðum. Almennar aðgerðir eru skattaumhverfi; menntakerfi, sérstaklega kannski verkmenntun sem við höfum vanrækt að nokkru leyti; fjármálakerfi, lipurt og gott fjármálakerfi; flutningsstarfsemi eða flutningur, vegaframkvæmdir og annað slíkt. Svo er það regluverkið sem fyrirtækin þurfa að starfa undir, flækjustig þess, hversu flókið það er eða hversu einfalt. Síðast en ekki síst er það velferðarkerfið, skilvirkt, ódýrt og gott velferðarkerfi sem skiptir atvinnulífið miklu máli.

[14:45]

Sértækar aðgerðir ganga hins vegar þvert á þetta. Þar er um að ræða stofnsjóði, svæðissjóði, rekstrarsjóði, sjóði hins og þessa þar sem embættismenn sitja og ákveða: Þetta fyrirtæki á að setja á og hitt á að slá af. Við setjum peninga í þessa starfsemi o.s.frv. Jafnvel þó að menn vilji hafa jafnræði milli manna verða alltaf einhverjir embættismenn, sem eru ábyrgðarlausir í ákvörðunum sínum vegna þess að þeir bera enga fjárhagslega ábyrgð sjálfir, til að deila út annarra manna fé, fé skattgreiðenda.

Þetta ábyrgðarleysi leiðir svo til þess að fyrirtækin sem fá styrki eru með yfirburðastöðu í samkeppni við önnur fyrirtæki á svæðinu sem ekki fá styrki, þ.e. heilbrigðu fyrirtækin. Og heilbrigðu fyrirtækin þurfa oft að lúta í gras fyrir fyrirtækjunum sem fá styrki. Við þekkjum þetta víða um landsbyggðina á Íslandi þar sem heilbrigður atvinnurekstur er drepinn niður með styrkjum til annarra.

Byggðaumræðan í gær og fyrir áramót er einmitt lýsandi dæmi um það hvernig menn sjá fyrir sér styrki og hvernig styrkirnir virka því að eftir að Byggðastofnun var sett á laggirnar hefur fólksflóttinn aldrei verið meiri. (Gripið fram í: Eins og skattkerfið í viðskiptalífinu.)

Bændur munu væntanlega á næstunni sjá afleiðingar af nýjasta búvörusamningnum þar sem einhverjir stráklingar úr Reykjavík fara að segja þeim hvar best er að beita. Það heitir gæðaeftirlit og gæðastjórnun. Þeir munu margir verða hissa þegar þeir eiga að fara að beita hinum megin við ána en ekki uppi í hlíðinni eins og þeir eru vanir að gera og vita að best er að gera.

Herra forseti. Það er mikill munur á rekstri fyrirtækja eftir því hvort þau eru að gera út á það að framleiða vöru og selja hana fyrir gott verð eða fá styrki. Það er nefnilega eðlismunur á þessu. Ef menn ætla að framleiða vöru og selja hana hugsa þeir um að græða. Þeir ætla sér að sýna væntanlegum fjárfestum fram á gróða. Ef menn sækja um styrki mega þeir ekki sýna fram á gróða vegna þess að þá þyrftu þeir ekki styrki. Það er heilmikil vinna fólgin í því að sækja um styrki. Það er svo mikil vinna að við liggur að þau fyrirtæki geti ekki stundað framleiðslu. Mér skilst að núna sé komin á fót skrifstofa í Reykjavík sem sér um að útvega styrki frá Evrópusambandinu. Þessi vinna er orðin að iðnaði, styrkjaiðnaði.

Ég vil benda á það í þessu sambandi að allt þetta fé er borgað af atvinnulífinu. Annaðhvort eru það starfsmennirnir sem borga of háan virðisaukaskatt eða óbeina skatta, eða beina skatta af tekjum sínum og gætu þar af leiðandi sætt sig við lægri laun ef þeir þyrftu ekki að borga of háa skatta, eða þá að fyrirtækin borga þetta beint. Einhvern veginn er þetta allt greitt af atvinnulífinu. Þannig er þetta bara spurningin um formið: Ætlum við að láta opinbera embættismenn útdeila þessu fé til fyrirtækjanna eða ætlum við að láta áhættufé, áhættusjóði sem starfa á því sviði, sjá um að koma peningunum út til þeirra fyrirtækja sem græða mest og þá í formi hlutafjár?