Vistvænt eldsneyti á Íslandi

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002, kl. 17:26:12 (4466)

2002-02-12 17:26:12# 127. lþ. 75.10 fundur 343. mál: #A vistvænt eldsneyti á Íslandi# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[17:26]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég ætla að blanda mér í umræðu um þessa till. til þál. Ég er sammála því að móta eigi stefnu um vistvænt eldsneyti á Íslandi og þó fyrr hefði verið. Á nefndinni og samsetningu hennar hef ég ekki beinlínis skoðun. Það verður að vera breið aðkoma að þessari nefnd en hvort þar eigi að vera fulltrúar allra ráðuneyta og fyrirtækis sem er saman sett af innlendum aðilum og útlendingum, ég er ekki viss um að það sé rétta leiðin. En að móta stefnu um vistvænt eldsneyti, ég er sammála því.

Þessi tillaga er athyglisverð fyrir margra hluta sakir, ekki bara vegna hugmyndarinnar um að móta stefnu um vistvænt eldsneyti. Hugmyndin sem slík er löngu komin fram og í nokkur ár höfum við fjallað um möguleika Íslands á að nýta vistvænt eldsneyti og hvað þurfi að gera til að svo verði. Þessar hugmyndir eru heldur ekki nýjar hvað varðar álagningu á eldsneyti.

Herra forseti. Uppbygging innviða, framtíðarskipulag eldsneytismála og rannsóknir á vistvænu eldsneyti eru þýðingarmikið verkefni, en það er samt ekki tillaga um stefnumörkun sem vekur athygli. Heldur hvað? Heldur frá hverjum þessi tillaga kemur. Þessi tillaga, jafnágæt og hún er og sérstaklega vil ég geta þess að það er mjög ítarleg og yfirgripsmikil greinargerð sem fylgir þessari tillögu, er flutt af Hjálmari Árnasyni og Guðjóni Guðmundssyni sem eru þingmenn stjórnarliðsins.

Samflokksmaður flm., iðn.- og viðskrh., hefði fyrir löngu átt að setja þetta mál forgang miðað við það sem fram hefur komið á liðnum árum, miðað við umræðuna um vetnið og umræðuna um möguleika Íslands, sem er heppilegt, eins og hér kom fram, vegna smæðar sinnar til að verða vetnissamfélag. Það er ekki nóg, herra forseti, að vera með góða fjölmiðlaímynd af vetnisreknum strætó og styðja tilraunaakstur ef allt sem máli skiptir vantar.

Það sem er athyglisvert við þessa tillögu er nákvæmlega það sem ég hygg að flutningsmaður hefði ekki kosið að vekti athygli, nefnilega að hún beinir sjónum að aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar í þessum efnum. Hvað hefur ríkisstjórnin gert? Hefur hún lokið við rammaáætlun um virkjanaröð? Nei. Hefur hún gert heildstæða úttekt á orkumálum samgangna hérlendis? Nei. Hefur hún búið til áætlun um þróun orku og samgangna, t.d. með tilliti til vetnisvæðingar? Nei. Hefur hún sett fjármagn í rannsóknir á lághitasvæðum sem skipta máli í orkuvæðingarstefnu okkar? Nei, en það hafa hins vegar þingmenn flutt tillögur um.

Er ríkisstjórnin yfirleitt að gera eitthvað sem máli skiptir hvað varðar hugsanlega vetnisvæðingu bíla- og bátaflotans? Nei. Þvert á móti. Allt snýst um að reisa risavirkjanir á viðkvæmustu náttúrusvæðum fyrir álver, ekki til að fá orku til þess að framleiða vetni fyrir framtíðina, með nýrri hugsun og möguleikanum á að verða í fararbroddi.

[17:30]

Herra forseti. Satt best að segja hefur umræðan hér um orkulindir og nýtingu orkulindanna verið afskaplega svart/hvít. Af því að þingmaðurinn beindi sjónum að Bandaríkjunum og því sem þar er verið að gera, sem er hárrétt, ætla ég að nefna annan þátt. Fyrirhugað var að byggja u.þ.b. 13 gamalkunnar virkjanir á viku í Bandaríkjunum, þessar hefðbundnu með gasi, olíu og kolum, mengandi orkugjöfum. Hörð umræða um þetta varð í Bandaríkjunum sem Bush tapaði. Snertir það okkur nokkuð á Íslandi? Já, vegna þess að menn sneru þessari umræðu við og fóru í framtíðarperspektífið um vetni sem hinn spennandi kost.

Í apríl í fyrra var haldinn fundur á sjálfri Capitol Hill og það var einn boðskapur á þessum fundi: Vetni, hinn spennandi kostur framtíðarinnar. Um það voru stærstu væntingarnar. En hvað haldið þið að hafi líka verið þar í fyrirrúmi? Uppi á vegg var stórt kort af Íslandi og sagt frá því að á Íslandi væri tilraunaverkefni komið í gang, að á Íslandi væru framsýn stjórnvöld sem ætluðu að gera Ísland að fyrsta hreina hagkerfinu, the First Hydrogenic Economy, að rosalega framsýn stjórnvöld væru að gera þar spennandi og merkilega hluti. Sagt var að áður hafi verið talið að u.þ.b. 30 ár væru þar til hægt yrði að vetnisvæða en nú væri því haldið fram að tæknilausnir fyndust innan tíu ára vegna nýrra efnarafala, vegna þess sem þingmaðurinn gerði hér ágætlega grein fyrir. Einnig var sagt að Ísland væri geysilegur brautryðjandi í orkumálum miðað við það sem væri verið að setja í gang á Íslandi. Ætli þessa menn hafi órað fyrir því að fyrirtæki samansett af erlendum fyrirtækjum og með lítilli en mikilvægri aðild Háskóla Íslands hefði verið fengið það verkefni að sjá um þessa hluti? Ætli þetta fólk sem þarna var saman komið á fundi og allir þeir sem beina sjónum hingað til Íslands vegna hugsanlegrar vetnisvæðingar --- ég þarf ekki að segja þingmanninum að hingað koma sjónvarpsstöðvar í gríð og erg. Hér eru haldnir fundir. Hingað komu þingmenn frá Evrópusambandinu og fulltrúar héðan eru kallaðir til útlanda til að mæta á mikilvæga fundi til að fjalla um þessi mál --- ætli þá óraði fyrir því sem ég hef talið upp hér, að það er hreinlega ekkert verið að gera af hálfu ríkisstjórnar Íslands í þessum málum. Það er athyglisvert við þessa tillögu að á meðan þessir aðilar mundu vísast telja að markvissara sé unnið að því en raun ber vitni að Ísland verði fyrsta orkuhreina hagkerfið í heiminum þá er það svo að það eru þingmannatillögur sem hafa verið fluttar um þessi mál, ekki bara núna heldur líka áður. Þetta er það sem vekur athygli, herra forseti.

Ég er alveg sammála þingmanninum að það eigi að móta stefnu um orkuframleiðslu og orkunotkun, um hvar, hvenær og hvernig eigi að virkja og hvernig eigi að nýta orkuna og forgangsraða þessu, hvernig stjórnvöld styðji við þróun orkuvinnslu og nýtingar og hver staða nýrrar tækni verði, svo sem vetnisbílanna og rafmagnsbílanna sem þingmaðurinn nefndi hér. Það verður að móta stefnu um það hvernig stuðla megi að því að nýta innlenda orkugjafa til að knýja bifreiða- og skipaflota landsins og efla rannsóknir í þessu skyni og gera heildstæða úttekt á orkuþörf í samgöngum og á fiskiskipum og draga saman alla kosti um það hvernig nýta megi innlendar orkulindir í þessu sambandi.

Herra forseti. Ég hefði kosið að halda mína ræðu og fara nánar yfir það sem stjórnvöld væru að gera ef hér hefði komið fram þáltill. stjórnvalda frá hæstv. iðn.- og viðskrh. um hvernig ætti að fara í þessi mál. Þetta er allt sýndarveruleiki, herra forseti, því miður. Því miður, vegna þess að ég er sammála þingmanninum í því hvert stefna skuli.