Vistvænt eldsneyti á Íslandi

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002, kl. 17:34:37 (4467)

2002-02-12 17:34:37# 127. lþ. 75.10 fundur 343. mál: #A vistvænt eldsneyti á Íslandi# þál., KolH
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[17:34]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég get nánast tekið undir hvert orð sem hv. síðasti ræðumaður, Rannveig Guðmundsdóttir, sagði í ræðu sinni og ætla að reyna að forðast að endurtaka nokkuð af því sem hún sagði.

Till. til þál. um mörkun stefnu um vistvænt eldsneyti á Íslandi er náskyld till. til þál. um sjálfbæra orkustefnu sem hefur í þrígang verið flutt á Alþingi en aldrei hlotið náð fyrir augum stjórnar Alþingis þannig að hún hefur aldrei ratað úr nefnd og Alþingi þar af leiðandi aldrei fengið að tjá sig um hana nema við fyrri umr. í þrígang. Sú tillaga gerði ráð fyrir því að Ísland tæki forustu í vetnisvæðingunni, mundi ganga fram fyrir skjöldu með gott fordæmi og að mótuð yrði hér á landi sjálfbær orkustefna til framtíðar.

Þann þátt í þeirri tillögu sem við hér nú ræðum tek ég hjartanlega undir. Ég lýsi því þó yfir að sorglegt er til þess að vita að það skuli þurfa að flytja þingmál af þessu tagi aftur og aftur án þess að þau hljóti í alvöru náð fyrir augum ríkisstjórnarinnar. Það er í raun kaldhæðnislegt að hv. þingmenn stjórnarflokkanna, Hjálmar Árnason og Guðjón Guðmundsson, skuli þurfa að ganga þessa leið á þeim nótum sem þeir eru að ganga nú.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að nýtingu orkulindanna í landinu fylgja óhjákvæmilega umtalsverðar fórnir náttúruverðmæta. Af því að hér var til umfjöllunar fyrr í dag rammaáætlun ríkisstjórnarinnar um vatnsafl og jarðvarma og af því að hér var dreift á borð þingmanna í dag frv. til laga um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar þá er rétt að geta þess að sú tillaga sem hér er til umfjöllunar snertir öll þessi svið. Ríkisstjórnin ætlar að hunsa sína eigin rammaáætlun með því að taka ótal virkjunarkosti undan rammaáætluninni eins og sýnt er á þskj. 795 í máli 503 sem ég nefndi áðan og var dreift á borð þingmanna í dag.

Skelfilegt er til þess að vita að þar skuli komin fram áætlun um virkjunarkosti sem virðast vera nokkuð bindandi og eiga að framleiða raforku upp á einar 13 teravattstundir umfram það sem nú er framleitt. Nú skulum við aðeins skoða þá orku sem við erum að framleiða, orkuna sem við erum að nota í dag og orkuna sem hv. þm. Hjálmar Árnason og Guðjón Guðmundsson ætla að nýta í vetnissamfélagið.

Við notum í dag 8 teravattstundir, 8,4 eða 8,6. Það er ekki alveg samræmi í tölunum sem við fáum, en við erum að framleiða í dag u.þ.b. 8,5 teravattstundir. Hv. þingmenn gera ráð fyrir að vetnissamfélagið þurfi 4,6 teravattstundir, þ.e. forsenda þeirrar vetnisvæðingar sem getið er í tillögunni er sú að virkjað verði og framleitt rafmagn upp á 4,6 teravattstundir. Hvar ætla hv. þm. að taka þetta rafmagn þegar ríkisstjórnin er á sama tíma og þeir leggja fram þessa tillögu búin að leggja fram röð virkjana sem útheimta 13 teravattstundir til viðbótar við þær 8,5 sem við framleiðum í dag og til viðbótar við þær 0,6 teravattstundir sem við þurfum í stækkun raforkumarkaðsins til 2012? Samhengi hlutanna, herra forseti, verður að skoðast. Ég spyr: Hvar er orkusparnaðaráætlunin sem fyrrv. hæstv. umhvrh. Guðmundur Bjarnason talaði fyrir á sínum tíma þegar hann kynnti langtímaáætlun ríkisstjórnarinnar til sjálfbærrar þróunar? Sú orkusparnaðaráætlun hefur ekki litið dagsins ljós enn þann dag í dag. Ríkisstjórnarflokkarnir eru ábyrgir fyrir því. Nú tefla ríkisstjórnarflokkarnir tveimur af sínum þingmönnum fram fyrir skjöldu til þess að flytja tillögu af því tagi sem hér er. Hún er allra góðra gjalda verð en það er ekki hægt að skoða hana af alvöru nema í samhengi við allt hitt sem ríkisstjórnin þykist ætla að gera í orkumálum.

Skoðum aðeins hversu umhverfisvæn þessi ríkisstjórn er og stjórnarflokkarnir, af því að þess var getið í ræðu hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur að þessari tillögu fylgi ansi greinargóð og fín greinargerð. Það eru orð að sönnu og heilmargt athyglisvert kemur fram þar. Eitt og annað mætti þar gagnrýna og ég hefði því í góðu tómi mjög gaman af að leggja margar spurningar fyrir hv. þm. Hjálmar Árnason. Eitt af því sem getið er um í þessari greinargerð er allur sá áhugi sem erlendir aðilar hafa sýnt Íslandi sem vetnissamfélagi. Það eru orð að sönnu að hv. þm. hefur verið ötull að koma hugmyndum sínum og fyrirtækisins Íslenskrar nýorku á framfæri í útlöndum. Hann hefur algjörlega náð í gegn með það. Þetta hefur vakið mikla athygli, eins og segir í greinargerðinni, og fjöldi sjónvarpsstöðva hefur komið hingað til Íslands og sérstök athygli er vakin á því í greinargerðinni að ríkisstjórn Íslands hefur verið afhent viðurkenning fyrir framsýnina, svokölluð ,,Green Globe Award`` sem forsrh. veitti viðtöku á sínum tíma. Skoðum það nú aðeins, herra forseti, af því að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir spurði af hverju ríkisstjórnin hefði ekki lagt þetta frv. fram. Og hver er stefna ríkisstjórnarinnar í vetnisvæðingarmálunum?

Ég er með úrklippu úr Morgunblaðinu frá 27. apríl 2001 þar sem fjallað er um Green Globe Award, þessi verðlaun sem hæstv. forsrh. tók við úr höndum Mikhails Gorbatsjovs í New York fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og þar kemur fram, í grein sem Morgunblaðið skrifar um umhverfissamtökin sem standa að baki þessum verðlaunum, að samtökin Green Cross International eða Alþjóða græni krossinn séu umhverfissamtök sem stofnuð hafi verið árið 1993 í framhaldi af umhverfisráðstefnunni í Ríó sem var haldin 1992. Gott og vel. Við vitum öll hvernig ríkisstjórnin hefur staðið sig í því að framfylgja ákvæðum Ríó-yfirlýsingarinnar. Við vitum öll hvernig ríkisstjórn Íslands hefur staðið sig í því að berjast fyrir undanþágum frá losunarkvótum. Það hefur verið gagnrýnt í þessum sal og þarf ekki að fara fleiri orðum um það. En þess má geta að í þessari grein Morgunblaðins er sagt frá markmiði þessara samtaka, Green Cross International. Nú ætla ég að fá að vitna beint í þessa grein, með leyfi hæstv. forseta.

,,Markmið GCI er einkum að hvetja til sjálfbærrar framtíðar með því að maður og náttúra rækti samband sitt í samhljómi. Vilja samtökin beita sér fyrir hugarfarsbreytingu og vinna þau sérstaklega að því að fá svonefndan jarðarsáttmála, Earth Charter, samþykktan innan Sameinuðu þjóðanna. Hann felur í sér leiðbeiningar fyrir einstaklinga og þjóðir til sjálfbærrar framtíðar.``

Allt er þetta gott og gilt. En það er kaldhæðnislegt, herra forseti, að Davíð Oddsson skyldi hafa tekið verið verðlaunum úr hendi þeirra manna sem hafa ritað undir þessa sáttmála, sérstaklega í ljósi þeirrar virkjunarstefnu sem hæstv. ríkisstjórn keyrir hér áfram.