Vistvænt eldsneyti á Íslandi

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002, kl. 17:59:21 (4470)

2002-02-12 17:59:21# 127. lþ. 75.10 fundur 343. mál: #A vistvænt eldsneyti á Íslandi# þál., Flm. HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[17:59]

Flm. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. er enn við sama heygarðshornið og segir að ríkisstjórnin hæstv. geri ekkert í málinu. Það er rangt og það veit hv. þm. og það hefur verið rakið hér.

Það er alveg ástæðulaust að gera lítið úr pólitískri yfirlýsingu ríkisstjórnar. Það er sú pólitíska yfirlýsing sem hefur dregið að, ekki bara fjölmiðlafólk þó vissulega skipti það máli, heldur fjárfesta, tæknifólk og vísindamenn. Hún hefur dregið að það fólk sem er í þessum hugleiðingum eða er úr þessum vetnisgeira. Það er vegna þess að íslenska ríkisstjórnin er að bjóða Ísland sem tilraunavettvang á þessu sviði. Hæstv. ríkisstjórn hefur stutt þetta með ráðum og dáð. Hún hefur veitt fjárframlög til þess. Hún hefur hvatt til þess með þeim ágæta árangri sem raun ber vitni. Það segir í raun allt sem þarf að segja.

En af því að hv. þm., sem er mjög annt um umhverfið eins og okkur öllum, nefndi metanól þá er það ein leið sem hefur verið skoðuð. Hún hefur komið fram í viðræðum margra aðila sem hingað hafa komið, m.a. við hæstv. iðnrh. Það er mér ljóst. Ég veit af því. Ég hef setið á slíkum fundi. En ég vil vekja athygli á því að metanólframleiðslan er ekki 100% vistvæn því að til þess að framleiða metanól þarf að hafa annars vegar hreint vetni og síðan þarf kolmónoxíð sem er sullað út í vetnið. Það er hægt að keyra efnarafala bíla á slíku en þá kemur útblástur. Þetta er því ekki 100% vistvænt. Þessa leið er hins vegar m.a. er verið að skoða á vegum Íslenskrar nýorku, ekki síst fyrir tilstuðlan hæstv. ríkisstjórnar.