Íþróttamiðstöð Íslands að Laugarvatni

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 14:19:36 (4501)

2002-02-13 14:19:36# 127. lþ. 77.4 fundur 278. mál: #A Íþróttamiðstöð Íslands að Laugarvatni# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[14:19]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hér kom fram að mikill áhugi var fyrir því hvað yrði um þessa lokaskýrslu starfshóps sem hæstv. menntmrh. skipaði. Þetta er býsna góð skýrsla og ef hún er lesin saman við þá skýrslu sem unnin var í Kennaraháskólanum þá fer mjög vel saman það samstarf sem lagt er til í þeim báðum. Í þessum starfshópi voru menn sem þekktu og þekkja mjög vel til þeirrar starfsemi sem átt hefur sér stað á Laugarvatni og Laugarvatn á sér langa sögu.

Eins og hér hefur komið fram er héraðsskólinn eins konar tákn fyrir staðinn. Þess vegna var mjög ánægjulegt þegar tekin var ákvörðun um endurbyggingu hans og að fá honum sérstakt hlutverk. Í þessari lokaskýrslu starfshóps sem hv. fyrrv. þm. Árni Johnsen stýrði er héraðsskólinn á Laugarvatni kallaður íþrótta- og ólympíumiðstöð Íslands og þar er gert ráð fyrir að þessi gamla bygging fái verðugt verkefni. Ég tel að þarna hafi verið staðið mjög vel að verki. Þess vegna er ánægjulegt að heyra að hæstv. ráðherra ætlar að fylgja þessu eftir. Hann hefur þegar skipað nefnd til þess að vinna úr tillögunum og áfangaskipta þeim vegna þess að þarna er um mjög dýra framkvæmd að ræða upp á um 325 millj. þó að kannski megi segja að brýnar framkvæmdir kosti um 250. Ekki síst er ánægjulegt að heyra að formaður þess starfshóps er Erlingur Jóhannsson sem átti sæti í fyrri nefndinni þannig að hann þekkir mjög vel til þeirrar vinnu sem þarna fór fram. Ég fagna þessu alveg sérstaklega vegna þess að íþróttamiðstöðin hefur gegnt mikilvægu hlutverki. Þarna koma um 5.000 börn á hverju ári ásamt öllum þeim hópum íþróttamanna sem stunda þar æfingar og þjálfun.