Svæðisútvarp Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 14:52:55 (4518)

2002-02-13 14:52:55# 127. lþ. 77.6 fundur 412. mál: #A svæðisútvarp Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[14:52]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Varðandi afstöðu mína til þessa máls liggur hún skýr fyrir. Ég vil að Ríkisútvarpið þjóni öllu landinu. Það kom fram í haust þegar ég áréttaði það með því að leggja til að kannað yrði hvort ekki ætti að styrkja landshlutahlutverk þess með því að færa hluta starfsemi Ríkisútvarpsins til Akureyrar. Það hefur gengið eftir.

Ég er líka talsmaður þess, og hef verið alla mína tíð sem menntmrh., að Ríkisútvarpið eigi sem best samskipti við einkaaðila og semji við þá sé tryggt að þeir geti veitt góða þjónustu og komið að málum með þeim hætti að góð sátt sé um þau.

Ef það er rétt, sem fram kemur hjá hv. þm., að útvarpið sem samið er við á Suðurlandi standi ekki undir þeim kröfum sem eðlilegt er að gera til þess sem samstarfsaðila Ríkisútvarpsins hlýtur það að vera sérstakt álitaefni fyrir Ríkisútvarpið hvort efni séu til að vera í samstarfi við slíkan aðila. Það hljóta að vera ákveðnar grunnforsendur í þeim samningi sem liggja því til grundvallar að þetta samstarf er fyrir hendi. Að sjálfsögðu á ekki að gera minni kröfur til einkaaðila þegar þeir taka að sér að sinna verkefni fyrir Ríkisútvarpið en til Ríkisútvarpsins sjálfs.

Þessi afstaða mín er alveg skýr. Ég hef aldrei verið talsmaður þess að Ríkisútvarpið tæki upp samstarf við einkaaðila til að draga úr grunnþjónustu sinni. Þvert á móti hef ég litið þannig á að með nánu samstarfi Ríkisútvarpsins við einkaaðila ættu báðir aðilar að styrkjast og þjónusta við hlustendur að aukast.

Ef það er rétt hjá hv. þm. sem hér kemur fram, að þessi samstarfsaðili Ríkisútvarpsins standist ekki þær kröfur sem gerðar eru til hans hlýtur það að vera sérstakt álitamál og úrlausnarefni.