Tækniháskóli Íslands

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 14:54:59 (4519)

2002-02-13 14:54:59# 127. lþ. 77.7 fundur 452. mál: #A Tækniháskóli Íslands# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SJóh
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[14:54]

Fyrirspyrjandi (Sigríður Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Sá skóli sem hefur verið og á að vera nokkurs konar flaggskip tæknimenntunar í landinu og hefur vakið athygli fyrir fagleg vinnubrögð og hátt gæðastig í námi og kennslu, Tækniskóli Íslands, hefur á undanförnum mánuðum átt í vök að verjast. Það er að vísu ekki ný bóla að fjárveitingar til skólans hafi verið naumt skammtaðar, oftar en ekki litið fram hjá mjög góðum greinargerðum sem borist hafa til fjárln. og menntmn. um fjárþörf skólans og honum skammtað eitthvað á allt öðrum nótum.

Skólinn rataði hins vegar í óvænta erfiðleika þegar átti að fara að breyta honum í tækniháskóla en á því stigi er hann óumdeilt rekinn að stærstum hluta þó einnig hafi þar verið reknir aðfaraáfangar á framhaldsskólastigi sem hafa gefið mjög góða raun. Þá fóru að koma fram hugmyndir um að einkavæða skólann með einhverju móti. Fyrst fóru fram umfangsmiklar viðræður um framtíð skólans við Samtök iðnaðarins um að þau rækju skólann. Þær viðræður sigldu í strand þar sem viðkomandi fannst heimanmundur sá er fylgja átti frá ríkinu of naumur.

Í kjölfar þeirra viðræðuslita töldu forsvarsmenn skólans að málið væri í höfn. Þeim höfðu meira að segja borist drög að frv. að tækniháskóla sem þeir voru nokkuð sáttir við. En þá bárust aftur fréttir um að viðræður stæðu yfir um að sameina Tækniskólann Margmiðlunarskólanum. Að því viðræðuborði var engum af stjórnendum skólans boðið, ekki heldur fulltrúa ráðherrans í skólanefnd. Nú hefur slitnað upp úr þeim viðræðum og þær fréttir hafa nýlega borist frá hæstv. ráðherra að á næstu dögum muni þetta ágæta frv. verða lagt fyrir þingið og er það vel.

Ég ætla því að gefa hæstv. ráðherra færi á að fá það skjalfest á Alþingi að frv. verði lagt fyrir alveg á næstunni, og spyr hann því þeirrar spurningar sem ég lagði fyrir í síðustu viku, en hún hljóðar svo:

Hvenær er von á að frv. til laga um Tækniháskóla Íslands verði lagt fram á Alþingi?