Tækniháskóli Íslands

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 14:57:24 (4520)

2002-02-13 14:57:24# 127. lþ. 77.7 fundur 452. mál: #A Tækniháskóli Íslands# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[14:57]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Það hefur verið mikill áhugi hjá atvinnulífinu á að koma að rekstri Tækniskóla Íslands. Þegar hafist var handa, eftir að samþykkt höfðu verið almenn lög um háskólastigið, við að færa Tækniskóla Íslands upp á háskólastig þótti mér sjálfsagt að leita allra leiða til að koma til móts við Samtök iðnaðarins fyrst og síðan aðra aðila sem standa að skólastarfi varðandi þennan þátt. Þessar viðræður hafa tekið langan tíma, ég viðurkenni það, sérstaklega við Samtök iðnaðarins. Þær tóku að mínu mati of langan tíma eins og ég lét koma fram oftar en einu sinni í því ferli öllu saman. Ég er þeirrar skoðunar að ekki hafi slitnað upp úr þeim viðræðum vegna þess að ágreiningur væri um fjárveitingar heldur bjuggu þar aðrar ástæður að baki og get ég fært góð rök fyrir því ef hv. þm. óska eftir þeim skýringum.

Lengi hefur verið leitað úrræða í þeim tilgangi að sameina tækninám og verkfræðinám. Ég hef einnig skipað nefndir til að vinna að því verkefni. Ég man eftir mjög fjölmennum fundi sem ég efndi til með tæknifræðingum og verkfræðingum um þetta mál. Þá var Listaháskóli Íslands að komast á laggirnar. Menn gengu til þess verks með mjög skipulegum hætti. Ég sagði á þeim fundi: Hvernig í ósköpunum stendur á því að verkfræðingar og tæknifræðingar sem virðast hafa áhuga á því að eiga samstarf innan vébanda Tækniháskóla Íslands geta ekki komið sér saman um hvernig að því verki verði staðið meðan listamönnum vex ekki í augum að stofna einkarekinn listaháskóla á landinu? Þá fékk ég þau svör sem mér eru minnisstæð: Jú, það er þannig að við komum okkur yfirleitt saman um 95% en það eru þessi síðustu 5% sem valda okkur erfiðleikum af því að við erum svo nákvæmir og við viljum geta farið ofan í alla sauma og séð hvernig málin líta út til loka. Það voru kannski alltaf þessi 5% sem menn stöldruðu við þegar atvinnulífið átti að koma að því að taka að sér rekstur þessa skóla þannig að aldrei var hægt að ljúka málinu.

Varðandi það sem hv. þm. sagði um viðræður menntmrn. og fulltrúa Margmiðlunarskólans vil ég segja að það voru viðræður um það hvort yfirleitt væru forsendur fyrir því að fara í viðræður um að þessir aðilar tækju að sér að reka Tækniháskóla Íslands. Þess vegna sagði ég alltaf, meðan þær viðræður fóru fram: Þetta eru viðræður milli ráðuneytisins og þessa aðila um ákveðnar frumforsendur og ástæðulaust að blanda skólanum inn í það ef ekki næðist samkomulag.

[15:00]

Samkomulag náðist ekki, menn urðu sammála um að gera hlé á viðræðunum og skoða málið hver fyrir sig. En í öllu þessu ferli hefur alveg frá upphafi legið fyrir á vegum menntmrn. vinna um hvernig færa megi Tækniskóla Íslands upp á háskólastig sem Tækniháskóla Íslands á vegum ríkisins. Þessi vinna hefur verið unnin í samstarfi við aðila innan skólans og sl. sumar höfðu stjórnendur skólans og aðrir þeir sem að málinu komu frv. á vegum ráðuneytisins til skoðunar, og hugmyndir þeirra um efni þess frv. komu síðan til ráðuneytisins í haust. Það tók síðan lengri tíma en ég reiknaði með að komast að niðurstöðu um það.

Ég hef varið mjög miklum tíma í málefni Tækniskóla Íslands og leiðir til að breyta honum í Tækniháskóla Íslands vegna þess að mér er annt um þetta nám. Mér er annt um þennan skóla og mér er annt um að það verði ekkert gert sem grafi undan því að þetta nám fari fram. Ég geri mér grein fyrir því að innan Tækniskólans fer fram mjög mikilvægt starf sem ekki má hrófla svo við að það eyðileggist.

Þess vegna hef ég gefið þennan tíma og þess vegna hef ég lagt svona mikla vinnu í þetta. Nú er frv. tilbúið og ég mun fara með það fyrir næsta ríkisstjórnarfund. Ef ríkisstjórnin heimilar mér að fara með það inn í þingflokka stjórnarflokkanna mun það væntanlega gerast í næstu viku. Þetta mál er því alveg komið á lokastig af minni hálfu. Menntmrn. samdi einnig á síðasta ári um fjárveitingar við Tækniskólann á nýjum forsendum. Þar inni er gert ráð fyrir því að frumgreinadeild skólans starfi áfram. Við getum hins vegar ekki tekið á því máli beint í lögum um háskóla því að frumgreinadeildin er ekki háskóladeild en í þessu frv. gerum við ráð fyrir því að frumgreinadeildin starfi áfram á grundvelli þeirra fjárveitinga sem koma samkvæmt þeim samningi sem við höfum þegar gert við skólann og mótar honum svipaðan starfsramma og háskólum er mótaður.