Tækniháskóli Íslands

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 15:05:07 (4523)

2002-02-13 15:05:07# 127. lþ. 77.7 fundur 452. mál: #A Tækniháskóli Íslands# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SJóh
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[15:05]

Fyrirspyrjandi (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýr svör um framtíð þessa skóla og ég hlakka ákaflega til að fá frv. og líta það augum. Ef það er eins gott og ég vonast til mun ég auðvitað berjast fyrir því að það fái mjög skjótan framgang í gegnum þingið.

Ég hef ekki skilið í vetur hvers vegna allur þessi vandræðagangur hefur verið í sambandi við Tækniskóla Íslands frekar en ég hef svo sem skilið það áður. Samtök atvinnulífsins sýndu áhuga, sagði hæstv. ráðherrann. Það er náttúrlega eðlilegt því að ég held að ekki nokkur skóli á landinu hafi jafnnáið samstarf við atvinnulífið í landinu eins og Tækniskóli Íslands.

Sú óvissa sem hefur verið í málefnum skólans hefur hamlað framþróun í honum, t.d. í vetur. Kennurum hefur fundist þeir vera eins og í lausu lofti með starfið og ég held að það sé mjög brýnt að við fáum þetta frv. núna til samþykktar til að eyða óvissunni og það megi þá vinna samkvæmt lögum.

Starfsumhverfi Tækniskólans þarf auðvitað að vera a.m.k. sambærilegt við það sem tíðkast í öðrum sambærilegum stofnunum. Þar verð ég að segja að nú skortir nokkuð á og þyrfti hæstv. menntmrh. og ráðuneyti hans að láta verkin tala, eins og þar stendur. Það er okkur Íslendingum mjög mikilvægt að sem flestir góðir námsmenn velji tækninám og rekstrarnám og því á ríkið að reka slíkan skóla með myndarbrag. Það á að leggja honum til glæsilegt húsnæði og það á líka að leggja honum til nægilegt fjármagn til kynningar á náminu svo að slíkur skóli geti keppt við einkareknu háskólana í landinu.