Tækniháskóli Íslands

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 15:07:21 (4524)

2002-02-13 15:07:21# 127. lþ. 77.7 fundur 452. mál: #A Tækniháskóli Íslands# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[15:07]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka þessar umræður. Það er ljóst að við erum sammála um að nauðsynlegt sé að setja skólanum þessi lög. Ég vona svo sannarlega að frv. komi sem fyrst fram á þingi þannig að þingmenn geti sannað í verki áhuga sinn á málinu með því að samþykkja lagafrv. sem fyrst og láta líka verkin tala.

Ég vil aðeins segja það að fjárhagslegar forsendur skólans munu náttúrlega fara eftir þeim almennu reglum sem gilda hér um háskólastigið og fjárveitingar til háskóla. Skólinn verður að sjálfsögðu að laga sig að því umhverfi sem hann er að fara inn í og verður að taka mið af því og haga skipulagi sínu í samræmi við það, það er alveg ljóst. Það verða engar sérreglur um þennan skóla og hann verður að laga starfsemi sína að þeim fjárhagslegu kröfum sem við gerum. Ég efast ekki um að fullur vilji sé til þess innan skólans og þar er metnaður í þá átt að þetta lagafrv. verði samþykkt, ekki síður en hér á þingi, með skjótum og markvissum hætti. Aðlögun skólans að háskólastiginu verður ekki auðveld en ef menn setja sér metnaðarfull markmið innan skólans eins og gert hefur verið í öðrum skólum sem hafa verið fluttir af framhaldsskólastigi upp á háskólastig er ég viss um að hægt verður að ná því markmiði á skömmum tíma.

Ég ítreka það sem ég sagði, mér er annt um að þessi skóli dafni áfram. Ég tel að hann geti það jafnt sem ríkisháskóli eða einkarekinn háskóli. Ég hefði gjarnan viljað sjá hann í nánara samstarfi við atvinnulífið en unnt er að gera þegar hann er ríkisrekinn en ég tel að tækifæri til þess að færa hann úr umsjá ríkisins yfir til einkaaðila gefist síðar ef áhugi er hjá þeim aðilum fyrir að taka að sér rekstur skólans.