Álagning skatta

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 15:35:25 (4535)

2002-02-13 15:35:25# 127. lþ. 77.9 fundur 380. mál: #A álagning skatta# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[15:35]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég hygg að við hv. þm. getum verið sammála um að auðvitað er æskilegt og nauðsynlegt að einfalda þetta kerfi sem hér er til umræðu, skattkerfið, og þjónustu þess. Ég tel reyndar að þjónustan hafi batnað mikið á undanförnum árum, bæði að því er varðar skattstofurnar og innheimtumennina, en auðvitað má gera þar betur og á því er full nauðsyn.

Að því er varðar síðan málsmeðferðartíma þegar málum er t.d. skotið til yfirskattanefndar hefur líka verið gerð ákveðin bragarbót í því efni. Hlutir ganga nú greiðar fyrir sig á þessu kærustigi en áður var þó að það geti gerst, eins og ýmis dæmi eru um, að afgreiðsla þar dragist úr hófi fram. Við í fjmrn. munum leggja okkur fram við að reyna að bæta þjónustuna sem verið er að tala um og stytta málsmeðferðartímann þannig að hann verði fólki ekki óbærilegur, hann verði eðlilegur og viðráðanlegur, bæði fyrir kerfið og fyrir almenning.

Ég ítreka síðan það sem ég sagði í upphafi að í framkvæmd styðjast innheimtumenn við meðalhófsreglu þegar þeir ganga að fólki. Sama á auðvitað við um áætlanir skattstofanna þegar svo ber undir að þær neyðast til að áætla tekjur á gjaldendur.