Náttúruminjar á hafsbotni

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 20:00:50 (4598)

2002-02-13 20:00:50# 127. lþ. 77.23 fundur 437. mál: #A náttúruminjar á hafsbotni# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KF
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[20:00]

Fyrirspyrjandi (Katrín Fjeldsted):

Herra forseti. Ég þakka fyrir umræður um þessa fyrirspurn og sérstaklega þakka ég hæstv. umhvrh. fyrir svörin.

Fyrir nokkrum árum munu Norðmenn hafa komist að því að veiðarfæri fiskiskipa þeirra hafi unnið óbætanlegar skemmdir á kóralrifjum úti fyrir ströndum landsins. Þar hafa verið friðuð stór svæði til að vernda fiskstofna sem tengjast kóralnum með ýmsum hætti. Líklegt er að slíkar skemmdir hafi einnig orðið hér við land. Leiði rannsóknir í ljós að slíkar kóralbreiður sé enn að finna í sjónum umhverfis Ísland ættum við e.t.v. að friða þær líka.

Hér hefur verið minnst á ýmsa aðra þætti þessa máls eins og ferðaþjónustu og rannsóknarstarfsemina í Sandgerði sem er mjög merkileg. Ráðherra sagði síðan að unnið væri að fyrstu náttúruverndaráætluninni og hún kæmi til þingsins á þessu ári en mundi ekki að neinu ráði fjalla um þetta. Ég hvet til þess að reynt verði að bæta úr því og sjá hvort ekki er hægt að útvíkka þá vinnu þannig að ekki þurfi að bíða í fimm ár í viðbót af því að slík áætlun verður jú ekki gerð nema á fimm ára fresti. Þá er ég með það í huga að reyna að fyrirbyggja frekari skemmd á hafsbotni og jafnvel að velja þá staði sem rétt er að friða.

Ég hef lagt fram á Alþingi fyrirspurn til hæstv. sjútvrh. um þá hlið málsins sem lýtur að fiskstofnum og uppvaxtarskilyrðum í sjónum, og umræða um hana mun fara fram á næstunni. En ég þakka fyrir þessa umræðu.