Meginreglur umhverfisréttar

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 20:27:06 (4609)

2002-02-13 20:27:06# 127. lþ. 77.25 fundur 450. mál: #A meginreglur umhverfisréttar# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[20:27]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. fyrir svörin, en lýsi því jafnframt yfir að ég er ekki alls kostar sammála henni um að þessi aðferð sem hæstv. umhvrh. lýsir að ríkisstjórnin sé að beita, þ.e. að lögfesta meginreglur umhverfisréttar með því að samþætta þær inn í hina ýmsu löggjöf sem við búum við, sé farsælli en hin leiðin, að lögfesta þær í sérlögum. Þvert á móti þá held ég að lögfesting þessara reglna í sérlögum geri það að verkum að þær nái auðveldlega yfir þá löggjöf sem við búum við í dag. Ég tel að leiðin sem hæstv. ríkisstjórn er að fara sé bæði seinvirk og jafnvel ómarkviss. Það væri forvitnilegt að vita í framhaldi af því sem hæstv. umhvrh. sagði hér áðan: Hversu langt telur hún sig eða ríkisstjórnina vera komna með það að samþætta meginreglur umhverfisréttar inn í þá löggjöf sem eðlilegt má telja að taki mið af slíkum reglum?

Herra forseti. Ég vil líka lýsa því yfir hér að í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur verið að reyna að koma sér upp stefnu til framtíðar um sjálfbæra þróun þá hafa ákveðin markmið verið sett. Ég sé ekki að neitt sé því til fyrirstöðu að meginreglur umhverfisréttar séu hátt skrifaðar í íslenskri löggjöf. Mér virðast yfirlýsingar hæstv. ríkisstjórnar ganga út á að það sé vilji ríkisstjórnarinnar þannig ég skil ekki hvers vegna ekki er farin hin einfalda leið að lögfesta meginreglurnar í sérlögum þar sem þær mundu dekka alla undirlöggjöf meira eða minna, frekar en að fara hina seinvirku og vandrötuðu leið.