Uppsagnir á Múlalundi

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 10:58:34 (4621)

2002-02-14 10:58:34# 127. lþ. 78.91 fundur 338#B uppsagnir á Múlalundi# (umræður utan dagskrár), Flm. JóhS
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[10:58]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er óviðunandi og ótækt, þegar ég flyt hér síðari ræðu mína, að hæstv. ráðherra skuli ekki hafa svarað einni einustu af þeim spurningum sem ég lagði fyrir hann. Ég hef því engin tök á, þegar ráðherra loksins svarar fyrirspurnum mínum, að bregðast við þeim. Á þessu vil ég vekja athygli.

Kjarni málsins er sá að á Múlalundi eru 40 fatlaðir einstaklingar í 27 stöðugildum og einungis greitt fyrir 15 þeirra. Allir þessir 40 einstaklingar hafa skerta starfsgetu. Þess vegna eru þeir á vernduðum vinnustað. Það er ótækt að þessir fötluðu einstaklingar verði bitbein á milli ráðuneytisins og Múlalundar, að deilt sé um hvort þeir séu fatlaðir eða ekki. Það er víst þess vegna sem staðið hefur á því í tvö ár að gerður hafi verið þjónustusamningur.

Þessir einstaklingar hafa allir fengið störf sín í gegnum atvinnuleit fatlaðra og umsóknir um þessa vernduðu vinnu sem þeir hafa fengið, vegna skertrar starfsgetu, hafa verið sendar til vinnumiðlunar höfuðborgarsvæðisins, sem svæðisskrifstofa málefna fatlaðra í Reykjavík hefur falið atvinnuleit fatlaðra. Þetta eru því óumdeilanlega einstaklingar með skerta starfsgetu og nú þarf Múlalundur að líða fyrir að ráðuneytið geti ekki fallist á að hér sé um fatlaða einstaklinga að ræða.

Herra forseti. Þetta er algerlega ótækt. Ég verð að segja, herra forseti, að þeir fötluðu einstaklingar sem bíða eftir svari frá ráðherra um hvort þeir geti verið öruggir um vinnu sína í framtíðinni eru engu nær eftir það sem fram hefur komið við þessa umræðu. Ég skora því á hæstv. ráðherra að nota þær mínútur sem hann hefur í lok þessarar umræðu til að svara þeim fötluðu einstaklingum sem bíða eftir því að ráðherrann, sem valdið hefur, leysi þann vanda sem blasir við Múlalundi. Annað er ótækt. Það er ávinningur fyrir samfélagið að þessir fötluðu einstaklingar hafi vinnu. Það er tap fyrir samfélagið að þeir hafi hana ekki. Auðvitað á að leysa þetta mál með farsælum hætti. Það kostar ekki mikið. Vilji er allt sem þarf í þessu efni.